138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem hv. þingmaður talar um makríl þá er þetta ekki alveg svona einfalt vegna þess að makríll er deilistofn og við þurfum að ná niðurstöðu við aðrar þjóðir um það hversu hár hlutur okkar er í þeim stofni gagnvart hinum. Þess vegna er þetta kannski ekki einfalt, en hins vegar setur ráðuneytið hámarksaflamark sem má veiða úr því sem þeir telja að þeir eigi að gera, og ekki hefur náðst niðurstaða í því, eins og t.d. með grálúðuna, sem er deilistofn þannig að menn eru þarna á þessu svæði.

En ég er algerlega sammála því, ég hef sagt það hér og sagði það margoft í sumar, að þarna væri verið að sólunda verðmætum og það má ekki af því að menn eru í kapphlaupi að búa sér til veiðireynslu í staðinn fyrir að nýta auðlindina skynsamlega. Auðvitað er þetta hlutur sem verður að bregðast við og það hefði verið hægt með mjög einfaldri aðgerð, eins og ég nefndi í ræðu minni í sumar og hv. þingmaður rifjaði upp, þ.e. að menn hefðu gefið út þá skipun að veiðireynslan yrði miðuð við verðmæti. Það hefði að sjálfsögðu verið eðlilegasta niðurstaðan.

Hvað varðar djúpkarfann og gullkarfann þá tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni að það veldur mér áhyggjum að menn skyldu ekki klára það mál til enda og segja: Við höfum gögn sem sýna fram á að viðkomandi skip hafa aldrei landað nema gullkarfa. Þá er mjög skynsamlegt að þau skip fái úthlutun á sínum gullkarfa vegna þess að þau munu ekki geta veitt djúpkarfann. Þetta eru fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í karfaveiðum, karfavinnslu og markaðssetningu á honum og hafa gert ákveðna samninga, það er mjög skynsamlegt. Það kemur líka fram í nefndaráliti minni hlutans þar sem menn benda á að þetta eru hlutir sem verður að skoða betur, að menn setji ekki rekstur þessara fyrirtækja í loft upp. Það er mjög óeðlilegt að úthluta aflaheimildum til einhverra sem geta sannarlega ekki nýtt þær.