138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:17]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Ég kem sérstaklega upp til að fagna því frumvarpi og jafnframt lýsa yfir ánægju með þá umræðu sem hér hefur farið fram, a.m.k. síðasta einn og hálfan tímann frá því að ég kom inn í þingsal.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson flutti gagnmerka og innihaldsríka ræðu um frumvarpið sem var málefnaleg og byggð á mikilli þekkingu hans á þessum málaflokki. Sá sem hér stendur kynntist skötuselsveiðum fyrir tveimur árum á hinu svokallaða Háadýpi suður með landinu í troll og svo óbeint með grásleppuveiðum á Breiðafirði síðasta sumar þar sem gríðarlegt magn er af skötusel. Þar hefur mikil sóun átt sér stað vegna þess að þar hafa veiðiheimildir ekki verið fyrir hendi til að koma með þann afla að landi. Menn þurftu að kaupa þær eftir á ef þær hafa þá á annað borð fengist. Það er, eins og hv. þingmaður benti á, hlýnun sjávar sem veldur því.

En jafnánægður og ég var með ræðu hv. þingmanns var ég fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar sem talaði fyrr í dag, og ég fylgdist með, vegna þess að hún einkenndist öll af þeim upphrópunum sem hafa verið svo áberandi í allri þessari umræðu um að hér væri verið að búa til óvissu sem væri að grafa undan undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Ég held að hún sé í ætt við það plan sem margir hafa talað um með tilliti til fyrningarleiðarinnar án þess þó að það liggi nákvæmlega fyrir hvernig hún verði útfærð og í raun og veru talað um hana sem sjálfstætt fiskveiðistjórnarkerfi sem hún er að sjálfsögðu ekki.

Á undanförnu ári hefur geisað mikið áróðursstríð í landinu af hálfu sumra útvegsmanna og þeirra sem vilja engar breytingar á fiskveiðistjórninni og tala mikið um óvissuna sem fyrirhugaðar breytingar hafa í för með sér, enginn fjárfesti þessa dagana og verið sé að grafa undan þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar.

Sú óvissa sem rætt er um er auðvitað komin til vegna þess að í síðustu alþingiskosningum buðu fram tveir stjórnmálaflokkar með þá stefnu að breyta skyldi í grundvallaratriðum fiskveiðistjórnarkerfinu. (Gripið fram í.) Þeir hlutu síðan meiri hluta atkvæða og sitja nú við stjórn landsins. Það er sá veruleiki sem við blasir. Vissulega er það svo að í stefnubreytingu felst alltaf einhver ákveðin óvissa, þ.e. sérstaklega þegar til hennar er boðið með þeim hætti sem hér er gert í samráði við hagsmunaaðila í greininni. En í þessari umræðu allri hafa varðhundar óbreytts fiskveiðistjórnarkerfis stillt sér upp sem sérstakir baráttumenn landsbyggðarinnar líkt og breytingarnar feli í sér að ekki verði lengur stunduð útgerð á Íslandi og þar með séu hagsmunir fiskvinnslufólks og verkamanna, sjómanna, sameiginlegir hagsmunum útgerðarmanna en ekkert er fjær sanni í þessum efnum.

Nauðsynlegt er að halda því fram í umræðunni að Landssamband íslenskra útvegsmanna, það ágæta félag, er ekki baráttusamtök fyrir landsbyggðina, þau eru ekki baráttusamtök fyrir sjómenn eða fiskvinnslufólk. Það er mjög nauðsynlegt að fram komi að með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða er ekki verið að uppræta þá atvinnugrein í landinu, eins og stundum er haldið fram. Það er nauðsynlegt líka að því sé haldið fram að það er ekki fiskvinnslufólk og sjómenn sem hagnast á því að selja eða leigja veiðiheimildir. Það eru eingöngu handhafar veiðiheimilda sem það gera. Það verður eftir sem áður stundaður sjórinn og unnið í fiski þó að sumir talsmenn Sjálfstæðisflokksins vilji halda öðru fram.

Síðasta útspil hagsmunasamtakanna, hótunin um að sigla flotanum í land, sýnir í raun væntumþykjuna um hagsmuni landsbyggðarinnar, um hagsmuni fiskvinnslufólks og sjómanna. Var það fólk spurt um þessa ákvörðun? Voru sjómenn spurðir að því og kusu þeir forustu LÍÚ til að vinna fyrir sig og sína hagsmuni?

Hvernig hafa stjórnvöld brugðist við í allri þessari umræðu og áróðursstríði? Jú, skipuð hefur verið sérstök sáttanefnd með öllum hagsmunaaðilum til að fara yfir þessi mál þrátt fyrir yfirlýsingar um að verið væri að leggja atvinnugreinina á hliðina, þrátt fyrir fyrir fram gefnar yfirlýsingar um að aldrei muni nást sátt um breytingar. Það verður aldrei sátt um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það verður aldrei sátt um fyrningarleiðina. Það er það sjónarmið sem blasað hefur við stjórnvöldum í þessum efnum og það er miður að svo sé, vegna þess að það er gríðarlega mikilvægt að það náist eins mikil sátt um fiskveiðistjórnina á Íslandi og nokkur kostur er. Það hefur verið gríðarleg óánægja með þetta kerfi lengi vel, alveg burt séð frá því hverjum það er að kenna eða hverjir gerðu þær breytingar sem óvinsælastar eru, hvað það er í kerfinu sem leiddi til óvinsældanna. Það er fyrst og fremst það óöryggi sem landsbyggðin hefur horft upp á í þessu kerfi sem veldur óvinsældum þess. Það hvernig veiðiheimildir hafa verið seldar í burtu, hvernig fyrirtæki hafa flutt annað, skip og útgerðir, án þess að íbúar sjávarþorpa eða fiskvinnslubæja hafi haft nokkuð um það að segja. Sú hætta blasti við í heimabæ mínum, Vestmannaeyjum, fyrir 2–3 árum að stór hluti aflaheimilda þar væri í hættu og hætta væri á því að hann yrði fluttur í burtu. Það er þetta sem veldur mestu óvissunni í kerfinu.

Ég hef verið talsmaður þess að fara nokkuð hratt í breytingar á þessu kerfi vegna þess að mér hefur fundist það vera sambærilegt því að rífa plástur snögglega af heldur en gera það hægt og rólega. Það er oft sársaukaminna þegar það er gert með þeim hætti. En ég hlýt að fallast á það eins og allir aðrir hljóta að gera að nauðsynlegt er að gera málamiðlun í þessu máli. Það verður aldrei sátt um útfærslu mína í málinu. Það er ljóst, mér er það ljóst á umræðunni sem orðið hefur. Ég þarf að nálgast þá sem eru á öndverðri skoðun. Ég get ekki haldið því fram einn og sér að ég muni aldrei sættast við sjónarmið annarra í þessu máli, ég ætla ekki að gera það fyrir fram. Það verður að nást eins mikil sátt um málið og hægt er.

Um flest þau atriði í frumvarpinu ættu allir að geta orðið sammála þótt deildar meiningar séu kannski einna helst um ákvæðið um skötuselinn. En menn voru reiðubúnir til að ræða breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu í þarsíðustu ríkisstjórn þegar Samfylkingin stjórnaði ásamt Sjálfstæðisflokki. Þá stóð til að gera sérstaka úttekt á áhrifum kvótakerfisins á byggðir landsins og bregðast við í kjölfar þess. Það sjónarmið hlýtur enn að vera til staðar innan Sjálfstæðisflokksins. Það hlýtur enn vera höfðað til þess sjónarmiðs og ég bið talsmenn þess flokks um að rifja það upp og koma til samstarfs við ríkisstjórnina. Ég skora á stjórnarandstöðuna að gera það, að breyta um vinnubrögð. Ég skora líka á LÍÚ að gera það, að breyta um vinnubrögð. Það verður að gera þær breytingar á lögum um fiskveiðistjórn með eða án útgerðarmanna, en þjóðin hefur ekki lengur efni — sérstaklega á þeim tímum sem við lifum núna — á átökum, á smámunasemi, á flokkapólitík og skotgröfum. Það hefur verið boðið upp á sátt, sérstaka sáttanefnd í þessu máli þar sem hlustað er á öll sjónarmið en það þýðir ekki að menn séu búnir að afsala sér forræði yfir málaflokknum. Það getur aldrei verið svo, en það þýðir að menn hlusta á sjónarmið og reyna að ná eins mikilli sátt og mögulegt er. Þess vegna verður að hvetja menn, sérstaklega talsmenn Sjálfstæðisflokksins, til að fara eftir yfirskrift fundarherferðar sinnar, Stöndum saman. Þannig getum við horf til framtíðar til þessarar undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar, skipulagt íslenskan sjávarútveg út úr gríðarlega erfiðri skuldastöðu og orðið í fremstu röð, einbeita okkur að því í sameiningu að búa svo um hnútana að við getum selt um allan heim ferskan fisk á háu verði. Við getum orðið til fyrirmyndar um sjálfbæra nýtingu sem yrði öðrum þjóðum til fyrirmyndar í umgengni við auðlindir sínar, orðið að mestu og bestu fiskveiðiþjóð heimsins. En til að svo megi verða verða allir sem að málinu koma að vera reiðubúnir til þess að slá af sjónarmiðum sínum og nálgast. Það þýðir ekki að rjúka af fundum, það þýðir ekki að segja: Það næst aldrei sátt um þína leið. Finnum þá nýja leið saman.