138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:31]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa spurningu vegna þess að þarna snertir hann á mjög mikilvægum punkti sem ég kom inn á í upphafi míns máls en skýrði kannski ekki nægilega vel. Fyrningarleiðin hefur í sjálfu sér aldrei verið útfærð neitt sérstaklega. Eini útreikningurinn sem ég hef séð á útfærslunni kemur, held ég, úr skýrslu sem unnin var fyrir Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum á því herrans ári 2003, eða fyrir 7 árum, og byggir á ákveðnum forsendum sem eru víðs fjarri þeim forsendum sem ég hef séð fyrir mér við framkvæmd fyrningarleiðarinnar. Þau mótmæli eru því einfaldlega byggð á misskilningi. Það sem boðið hefur verið upp á, í hinni svokölluðu sáttanefnd, og það sem útvegsmönnum hefur boðist þar, er að óháður aðili hefur verið fenginn til þess verks ásamt með þessari nefnd að reikna sig að niðurstöðu þannig að við færum í útfærslu á fyrningarleiðinni sem væri alveg tryggt að mundi ekki leggja eitt einasta fiskvinnslufyrirtæki á hliðina. Það er tilboð sem liggur á borðinu og ég held að nauðsynlegt sé að gera það. Ég held að það væri algert feigðarflan að fara að gera breytingar á kerfinu sem setti fyrirtæki á hausinn. Það hefur enginn áhuga á því — sameiginlegur útreikningur sem lægi til grundvallar þannig að menn gætu tekið ákvarðanir um skref sameiginlega í kjölfar þess.