138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:37]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Árna Johnsen að ég hef áttað mig á því að þetta mál gengur aldrei nema eins mikil sátt náist um það og mögulegt er. Ég hef líka áttað mig á því að sú staða sem íslensk þjóð er í á þessum tímamótum leyfir ekki lengur þá pólitík sem stunduð hefur verið í þessum efnum. Það er liðinn tími að við getum leyft okkur þann munað að rífast út frá flokkspólitískum skoðunum hvað þetta varðar. Menn verða einfaldlega að reyna að nálgast hver annan í þessu máli. Það er svo mikið hagsmunamál fyrir þjóðina.

Ég sagði líka í ræðu minni að það að menn skipi sáttanefnd um útfærslu á þessu grundvallaratriði þýðir ekki að menn framselji yfirráð yfir greininni frá sér meðan á því stendur. Enda er það svo að í því frumvarpi sem hér er til umræðu eru 8 atriði sem ég held að allir geti verið sammála um og hægt verði að ná einhverri samstöðu um með útfærslum nema e.t.v. skötuselinn, og það kom fram í framsögu hv. varaformanns sjávarútvegsnefndar að ákveðið tilboð hefði verið á borðum varðandi skötuselinn sem hefði verið hafnað af útvegsmönnum. Ég held samt sem áður að hægt sé að ná samstöðu um það.

Ég ítreka þá skoðun mína að það að vinna að málinu í sáttaferli þýðir ekki að menn breyti engu meðan á því stendur í ráðuneyti sjávarútvegsmála. Það gengur ekki. En hins vegar er allt til umræðu í þessum efnum og ég held að sú umræða sem hefur farið fram í dag sýni hverjir möguleikarnir eru. Þeir eru miklir.