138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:44]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu síðasta hv. þingmanns birtist vandi þessa máls í hnotskurn og sú umræða sem verið hefur. Önnur hliðin hefur verið tilbúin til að ná sátt um málið ef hin hliðin er tilbúin til að leggja stefnumál sín til hliðar. Það mun aldrei nást nokkur sátt með þeim hætti. Ef við erum einfaldlega tilbúin til að falla frá áformum okkar um fyrningarleiðina þá getum við talað saman. En þannig virka hlutirnir ekki, hv. þingmaður. Ég hef í sjálfu sér engu við það að bæta.

Við verðum að reyna að nálgast hvort annað og ekki er hægt að gera þá kröfu að við hættum að tala um stefnumál okkar frá því í síðustu kosningum og föllum frá því og ákveðum að nálgast málið út frá sátt sem Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til að skilgreina að sé óbreytt kerfi.