138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:46]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef reynt að temja mér það að ræða þetta mál í ró og yfirvegun á þessum þingfundi og ætla að halda því áfram þó að sumum virðist vera dálítið heitt í hamsi yfir þessu máli.

Ég ítreka það sem ég hef sagt áður. Til þess að íslenskur sjávarútvegur geti sótt fram og orðið meðal þeirra fremstu í heiminum (Gripið fram í.) verður að nást sátt um málið á milli stjórnmálaflokka og menn verða einfaldlega að gera sér grein fyrir að þeir verða að gera málamiðlun og nálgast skoðanir jafnvel þó að þær séu andstæðar þeirra eigin skoðunum í málinu. (Gripið fram í.) Jafnvel þó, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, að þær séu andstæðar þeirra eigin skoðunum í þessu máli. Það er einfaldlega krafa þjóðarinnar að á hinu háa Alþingi séu tekin upp ný vinnubrögð og önnur en þau sem tíðkast hafa. (REÁ: Ekki ákveða niðurstöðuna fyrir fram.) Það er enginn að ákveða niðurstöðuna fyrir fram, hv. þingmaður.