138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ljósi þess að þetta er stutt andsvar og hæstv. ráðherra hefur eingöngu tvær mínútur til að svara ætla ég að spyrja hann tveggja afmarkaðra skýrra spurninga sem ég vænti að hann geti svarað á eftir.

Í ræðu sinni lagði hæstv. ráðherra mikla áherslu á þá varúðarnálgun sem kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar varðandi nýtingu fiskimiðanna. Þetta er þekkt sjónarmið. Þess vegna kom mjög á óvart að hæstv. ráðherra legði fram frumvarp sem fól í sér heimild eða nánast sagt tilskipun þjóðþingsins um að hann færi með aflaheimildir í skötusel upp um 80% umfram ráðleggingu Hafrannsóknastofnunarinnar. Nú hefur það gerst að meiri hluti nefndarinnar hefur sagt að þetta megi ekki gera nema í nánu samráði við Hafrannsóknastofnun sem mundi að sjálfsögðu leggjast gegn öllum slíkum áformum. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða áform hefur hann uppi í þessum efnum? Það er búið að reyna að tala þetta niður og segja sem svo: Þetta er bara heimild, ráðherra mun auðvitað aldrei nýta sér það að fara með skötuselinn við þessar aðstæður upp um 2.000 tonn í ljósi fiskveiðiráðgjafarinnar, í ljósi þess að hann aðhyllist varúðarnálgun við fiskveiðar. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra og ég trúi ekki öðru en að hann hafi velt fyrir sér hvað hann hyggist fara hátt með þessa viðbótarúthlutun í skötusel.

Í öðru lagi vakti það mikla athygli mína að eina breytingartillagan sem meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar lagði fram varðandi ráðstöfun þess fjármagns sem á að fást við uppboð á skötuselnum var að hverfa frá því að hluti þess fjármagns rynni sérstaklega til byggðamála, sjávarbyggðanna eins og stendur í athugasemdum við frumvarp hæstv. ráðherra og ráðherra hefur sjálfur skrifað þar með. Það er horfið frá þessu og þetta á núna að fara í þennan sjóð í iðnaðarráðuneytinu, Átak til atvinnusköpunar , þar sem ekki er gert ráð fyrir að slíkir peningar fari sérstaklega til byggðanna heldur til annarra hluta. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvers vegna var þetta gert? Var þetta gert með vitund og vilja hans? Er þetta til marks (Forseti hringir.) um stefnubreytingu og hvers vegna lét hæstv. ráðherra rúlla svona gjörsamlega yfir sig (Forseti hringir.) í þessu máli?