138. löggjafarþing — 72. fundur,  2. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[19:21]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta frumvarp er nú á forsjá þingsins en ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi íhugað að beita sér fyrir því að frumvarpið verði lagt til hliðar. Ég tel næsta víst, eins og Bjarni Fel. mundi segja, að ef ráðherra mundi beita sér í anda þess að ætla að ná sátt um þetta kerfi fengi hann það fram. Ég hef það mikla trú á hæstv. ráðherra.

Það er annað sem vakti athygli mína í svari hæstv. ráðherra. Hann talar um að verkefni nefndarinnar sé að útfæra ýmis atriði sem fram koma í stefnu ríkisstjórnarinnar og þá spyr ég hæstv. ráðherra beint: Er það ekki verkefni nefndarinnar, eins og hæstv. ráðherra sagði í þessari ræðu hjá LÍÚ, að setja á fót vinnuhóp til að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta? Er það núna ætlun hæstv. ráðherra að þessum starfshópi verði falið að útfæra stefnu ríkisstjórnarinnar sem þetta fólk sem þarna hefur til valist getur verið sammála eða ósammála eftir atvikum? Meiri hluti þeirra sem gefa umsagnir um þetta frumvarp hefur lýst sig ósammála að mörgu leyti þeim atriðum sem hér koma fram. Mér fannst liggja í orðum hæstv. ráðherra að starfshópnum væri ætlað að útfæra stefnu ríkisstjórnarinnar. Er það misskilningur hjá mér? Ég þyrfti að fá skýrt svar við þessu frá hæstv. ráðherra og ég ítreka þá spurningu mína hvort hæstv. ráðherra íhugi í nafni sáttar að draga þetta frumvarp til baka, leggja það til hliðar, í það minnsta þar til niðurstaða starfshópsins er klár. (Forseti hringir.)