138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Mér er nokkur vandi á höndum að ætla að fara að svara fyrir hæstv. fjármálaráðherra hvað hann sagði í einhverju blaðaviðtali varðandi gögn í Icesave-málinu. Ég ætla að nota tækifærið og ítreka að sem formaður fjárlaganefndar kom ég að þessu máli í júlímánuði á síðasta ári eftir að gerður hafði verið samningur í júnímánuði. Þar kölluðum við eftir öllum þeim gögnum sem höfðu tengsl við þá vinnu sem við vorum að vinna sem var að fjalla um ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum. Í þeirri vinnu hefur verið orðið við öllum óskum um að birta gögn, það hefur verið gengið mjög ítarlega eftir því að gögn væru þýdd og lögð fram. Ég hef ekki vitað til þess að það væru einhver gögn sem ekki hefðu verið notuð þar. Hins vegar getur vel verið að það hafi eingöngu verið gögn sem lágu að baki þingsályktunartillögunni 5. desember 2008 eða að einhver gögn hafi komið fram á haustmánuðum. Við kölluðum ekki eftir þeim gögnum öllum í fjárlagavinnunni einfaldlega vegna þess að það var ekki verkefni okkar í fjárlaganefnd. Ég vona að þetta skýri það hvernig aðkoman er varðandi fjárlaganefnd. Ég held að það sé kominn tími til að menn hætti þessari umræðu, að vera alltaf að tala um einhver leyndarskjöl, sem ekki hefur þjónað neinum tilgangi í þinginu heldur hefur skapað moldviðri í kringum mál sem okkur veitir ekki af að reyna að ná samstöðu um að koma áfram og reyna að ljúka. Það væri gaman að fá lista yfir þau skjöl sem kölluð voru leyndarskjöl í vinnu fjárlaganefndar. Ég held að þau hafi verið þrjú og ekkert af þeim var notað í umræðunni eða við úrvinnslu málsins. Við þurfum að breyta þessari orðræðu og við skulum kalla eftir skýringum ef eitthvað er óljóst enn þá en þar getur hæstv. fjármálaráðherra best svarað sjálfur hvað hann átti við. En ég get fullyrt að við í fjárlaganefnd höfum, a.m.k. frá því að ég tók við málinu, lagt fram allt sem mögulegt hefur verið að leggja fram til grundvallar í þeirri vinnu sem átt hefur sér stað varðandi málið.