138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það var undarlegt að upplifa það í gærkvöldi þegar forsætisráðherra Íslands lýsti sér sem stjörfum áhorfanda að Íslandssögunni í Kastljósi í gær. Það kom þó fram að þann 6. mars ætlar hún að vera gerandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni um samning sem hún telur afleitan en engu að síður ætlar hún að segja já. Við höfum deilt um hvort íslensku þjóðinni beri yfir höfuð einhver skylda til að taka að sér uppgreiðslu skuldar frá gamla Landsbankanum og líka um hvort samningarnir séu einfaldlega nógu góðir.

Hins vegar lýsti forsætisráðherra yfir efasemdum sínum í gærkvöldi í þessu viðtali um gæði Icesave-samninganna þegar hún sagði að eftir á að hyggja hefði verið skynsamlegt að fá reynslumeiri og vana samningamenn í íslensku samninganefndina. Þetta eru á margan hátt merkileg ummæli og ekki mikill drengskapur að því að koma þannig fram eftir margra mánaða vörn stjórnarflokkanna vegna þeirra samninga sem Svavar Gestsson og samninganefnd hans komu með heim. Ég tel enga ástæðu til að varpa rýrð á vilja samninganefndarinnar til að gera sem best þau gátu en það verður hins vegar ekki fram hjá því litið að iðulega hafa þau sjónarmið komið upp í þessu máli að leita hefði átt aðstoðar sérfræðinga með meiri þekkingu og reynslu til að leiða við vinnu Íslands við samningsgerðina. Ég tel augljóst að Samfylkingin er komin á hraðan flótta frá samningunum á meðan Vinstri grænir leggja allt sitt púður í að verja vinnu fulltrúanna í samningaferlinu.

Þessi ummæli forsætisráðherra gefa til kynna að við samningsgerðina hafi að hennar mati verið gerð ákveðin mistök. Ég vildi við þetta tækifæri spyrja hv. þingmann Árna Þór Sigurðsson, sem vann mikið í þessu máli í sumar, hvort hann sé sammála því mati forsætisráðherra að betra hefði verið fyrir hagsmuni Íslands að fá reynslumeiri samningamann í fyrirsvar fyrir Ísland í þessari deilu. Ef svo er væri fróðlegt að heyra frá hv. þingmanni hvort hann hefur upplýsingar um hvar þau mistök gætu legið og að hvaða leyti samninganefndin hefði þá getað náð betri niðurstöðu.