138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég get ekki svarað því hvers konar samningur hefði legið á borðinu ef einhverjir aðrir hefðu skipað samninganefndina en skipuðu hana í lokin en ég get svarað því hvers konar samningur lá fyrir þegar eldri samninganefnd gerði drög að lánasamningi haustið 2008 til tíu ára upp á 6,7% vexti. (Gripið fram í.) Það var sú staða sem ný samninganefnd undir forustu sendiherra Íslands, Svavars Gestssonar, tók við og leiddi málið til lykta með mun betri niðurstöðu en hafði verið lagt af stað með. Það var sú breyting sem var gerð á samninganefndinni. Samninganefndin var styrkt með því að sendiherra Íslands tók við. Það var ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins sem við þekkjum öll til hér inni sem leiddi þessa samninganefnd en nýr ráðuneytisstjóri tók við þegar ný ríkisstjórn tók við málinu.

Mestu mistökin í þessu máli voru gerð haustið 2008, langstærstu mistökin voru gerð þá. Þá var grunnurinn lagður að þeim mistökum sem við sitjum enn uppi með í dag. (Gripið fram í.) Það tókst að bæta úr því með eins góðum hætti og mögulegt var að gera. Ég get ekki svarað því, hv. þingmaður, hvort hægt hefði verið að ná betri samningi ef einhverjir aðrir hefðu skipað nefndina en ég veit að það var verri samningur sem lá fyrir með annarri samninganefnd. Það liggur fyrir núna mjög ásættanlegur samningur frá þeirri samninganefnd sem sendiherra Íslands Svavar Gestsson leiddi, og við ættum auðvitað að samþykkja hann.

Það hefur verið rætt um leyniskjöl. Menn hafa verið með brigslyrði um leyniskjöl í marga mánuði í allri þessari umræðu. Kannski koma upplýsingar um þau leyniskjöl úr Sjálfstæðisflokknum sjálfum. (Gripið fram í.) Ég veit ekki betur en að hér sitji á þingi hv. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hafði kannski eitthvað með markaðssetningu Icesave-reikninganna að gera á þeim tíma, hún væri jafnvel fús til að upplýsa um þau gögn sem hugsanlega kunna að liggja fyrir og skýra hver aðkoma hennar var að málinu.