138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að leiðrétta hv. þingmann. Það hafa bara verið gerðir Icesave-samningar af hálfu núverandi ríkisstjórnar, ekki aðrir. Ég eins og fleiri horfði á Kastljós í gærkvöldi þar sem hæstv. forsætisráðherra birtist, sat þarna saklaus, prúð og undirleit, svo ég vitni nú í alþekkt kvæði, og virtist lítið vita í raun og veru hvað væri að gerast í stórum þáttum í þjóðfélagi okkar. Í Ríkisútvarpinu sagðist hæstv. forsætisráðherra oft vera agndofa yfir fréttum af umsvifum auðmanna sem voru aðalpersónur útrásarinnar. Það sé mjög sérstakt að slíkir menn eigi hlut í stórum fyrirtækjum hér. Hinir svokölluðu útrásarvíkingar séu enn áberandi í íslensku atvinnulífi og þar eru nefndir til sögunnar Ólafur Ólafsson í Samskipum, sem heldur því fyrirtæki eftir fjárhagslega endurskipulagningu, Björgólfur Thor, einn aðaleiganda Verne Holdings sem á að fá sérstakar ívilnanir frá ríkinu, og Jón Ásgeir Jóhannesson, sem á 365 miðla og hlut í Arion banka. Menn velta fyrir sér hvort hann fái að halda Högum, stærsta verslunarfyrirtæki landsins.

Hæstv. forsætisráðherra lýsti þessu þannig að á þessa atburðarás hefði hún eingöngu horft í sjónvarpinu. Það var eins og hæstv. forsætisráðherra væri eins og saklaus sjónvarpsáhorfandi heima í stofu og gæti ekkert aðhafst. Hún lýsti sjálfri sér þannig og sagði síðan: „Margt sem ég hef séð í fréttunum er ég yfir mig hneyksluð á.“ Hæstv. forsætisráðherra fylgist þannig með atburðarásinni í þjóðfélaginu. Það vekur auðvitað athygli að þessi hæstv. forsætisráðherra talar þannig eins og hún sé ekki forsætisráðherra heldur bara sjónvarpsáhorfandi, einn af 300 og eitthvað þúsundum sem sitja fyrir framan sjónvarpstæki sín. Virðulegi forseti, það er auðvitað ekki þannig en ég vildi spyrja hv. varaformann viðskiptanefndar Alþingis álits á þessum ummælum. Það er hins vegar greinilegt að það sem hér er að gerast er allt í boði Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Það gerist á vakt Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Gallinn er bara sá að vaktmennirnir sofa.