138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil bjóða hv. þm. Sigurgeir Sindra Sigurgeirsson velkominn á þing og velkominn sem Borgfirðing í þennan hóp sem hér er. Ég fagna því mjög að hann skuli koma í hóp þeirra aðila sem hafa áhyggjur af Hvalfjarðargangagjaldinu og hafa áhuga á að leggja það niður. Ég hef að vísu ekki litið þannig á að sá stuðningur sem ég fékk í kosningunum 2007, sem var á milli 20 og 30%, hafi verið vegna Hvalfjarðarganganna. Þá hefði Hvalfjarðargangagjaldið kolfallið því að 75% hefði þá verið hlynntur því. Ég held að staðan sé ekki þannig, en því miður var það þannig þegar við í Samfylkingunni komum í ríkisstjórn fékk ég hvorki völd né nægjanleg áhrif, nákvæmlega eins og hann sagði, til að geta breytt þessu þá. Það var vegna þess að það var ákveðin andstaða, meðal annars í þeim stjórnarmeirihluta sem þá var stofnaður, gagnvart því að fella niður gjaldið.

Ég mun ekki gera tillögu um þetta aftur meðan ástandið er eins og það er núna. Ég mun líka vitna til þeirrar umræðu sem ég tók upp þá ef hv. þingmaður vildi sjá málið í heildarsamhengi. Ég tók sérstaklega fram að leggja ætti niður gjaldið í Hvalfjarðargöngum af samkeppnisástæðum og vegna þess að við værum búin að borga það í tíu ár. Þetta var frábær framkvæmd sem tókst vel, er mikilvæg og breytti ákveðnum forgangi verkefna þannig og tók ég ákvörðun ásamt fleirum um þessa framkvæmd á sínum tíma. En þegar tíu ár voru liðin taldi ég að annað tveggja ætti að gera, að fella niður gjaldið eða leggja gjöld á sambærilegar leiðir, á Reykjanesið og Suðurlandsveginn. Það er nákvæmlega það ferli sem er að fara í gang núna, að skipa vinnuhóp um veggjöld almennt þar sem ekki verður um mismunun að ræða heldur munu menn taka varanlega afstöðu til þess hvort og þá hvernig við ætlum að nýta gjöld í tengslum við umferð. Ég vona að niðurstaða fáist úr þessu og vil taka sérstaklega fram að ef menn hefja gjaldtöku á Reykjanesbrautinni og Suðurlandsveginum verði ekki bætt viðbótargjaldi á Vesturlandsveginn heldur verði Hvalfjarðargjaldið látið duga þar til göngin hafa verið greidd upp að fullu.