138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að gefa mér tækifæri til að ræða undir þessum lið rekstur RÚV og aðstæður sem sú stofnun býr við. Það er alveg rétt, eins og menn vita, að húsnæði stofnunarinnar er stórt og það er dýrt í rekstri og svo er þungur baggi á rekstri stofnunarinnar. Ný tækni tekur minna pláss þannig að minna húsnæði mundi henta starfseminni betur og á fundi hv. menntamálanefndar í morgun fór útvarpsstjóri ásamt formanni stjórnar RÚV yfir þessi mál. Í máli þeirra kom m.a. fram að það kostar 200 millj. kr. að reka húsnæðið og til samanburðar kostar 300 millj. kr. að reka dreifikerfið allt, svo tölurnar séu settar í samhengi.

Varðandi þær hugmyndir að breyta húsnæðinu í lögreglustöð hefur það ekki verið rætt í hv. menntamálanefnd (Gripið fram í: Eða tukthús.) — eða tukthús, og ég læt þær hugmyndir liggja á milli hluta. En mér skildist samt á umræðunum eða frammíköllum í gær að þessi hugmynd hafi komið upp hjá fleirum og í fleiri ríkisstjórnum. En varðandi útsendingar svæðisútvarpa kom það skýrt fram á fundinum í morgun að þótt gert sé ráð fyrir að svæðisbundnar útsendingar verði lagðar af komi í staðinn þættir og fréttir af landsbyggðinni sem allir landsmenn fá að njóta en ekki bara svæðin sjálf og að því leyti tel ég þessa breytingu vera jákvæða. Svæðisstöðvarnar sjálfar verða lagðar niður í þeirri mynd sem þær eru nú en með breyttri tækni er þetta mögulegt þar sem ekki er nauðsynlegt með breyttri tækni að hafa fastan starfsvöll til að vinna útvarpsefni. Ég vona að þetta svari spurningum. (Gripið fram í: Nei.) Nei.