138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:11]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í ræðustól á Alþingi til að taka undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann biðlar til og talar til bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuþingmanna um að þessi liður sé endurskoðaður. Ég held að það sé einn liður í endurreisninni og það þurfi að gera.

Menn fögnuðu því þegar þessi breyting var gerð á þingsköpum af fyrrverandi forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssyni. En mér sýnist á því hvernig þetta er notað þá hafi sú breyting ekki verið til góðs og ég held að það sé full ástæða til endurskoðunar. Ég hefði t.d. frekar viljað að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hefði spurt mig sjálfan út í ummæli mín um Ríkisútvarpið í staðinn fyrir að spyrja allt annan aðila. Ég hefði td. getað þá svarað því að þetta var í samstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem þetta var rætt, ekki kannski beint á formlegum ríkisstjórnarfundi en fyrir og eftir og þessi vandamál hafa verið uppi. Þar hefur líka verið rætt um það, virðulegi forseti, þegar verið var að skera niður á svæðisstöðvunum úti um land, að það verði sennilega gert til þess að þingmenn viðkomandi stjórnarflokka kæmu þá og bæru það til baka. Þessi umræðuefni eru það gömul að þau heyra til þeirrar ríkisstjórnar sem þetta var rætt, þar sem þessir hlutir komu fram.