138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg sjálfsagt að taka hæstv. ráðherra á orðinu og velta fyrir sér hvort gera eigi breytingar á þingsköpum Alþingis. Nú hafa þeir tilgreint að það sé ástæða til að skoða þennan lið, um störf þingsins, alveg sérstaklega í tilefni þeirrar umræðu sem fram hefur farið í dag. En hvað er það sem hæstv. ráðherrar eru í raun að kalla eftir? Hvers konar breytingar á að gera? Ef marka má orð þeirra finnst þeim óeðlilegt að þingmenn skiptist hér á skoðunum um tilgreind mál sem ofarlega eru á baugi í þjóðmálaumræðunni. Ég er ósammála því. Mér finnst eðlilegt að við þingmenn getum einmitt skipst á skoðunum af þessu tagi um þessi mál og hver leitað eftir sjónarmiðum annars. Þannig hefur þetta verið gert frá upphafi. Þannig var þetta gert á síðasta kjörtímabili. Þá vældi enginn undan því. Þá vældu ekki ráðherrarnir yfir því þótt spurst væri fyrir um málaflokka þeirra eða ummæli og það sem þeir væru að gera og ekki að gera. Það er eðlilegt að þingmenn skiptist á skoðunum undir þessum dagskrárlið, rétt eins og það er eðlilegt (Forseti hringir.) að við höfum tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra þegar þeir mæta í þingsalinn og sitja fyrir svörum um þau mál (Forseti hringir.) sem hv. þingmenn vilja spyrja þá út í.