138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:17]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála hv. þingmanni sem talaði á undan. Eins og málum er háttað eru handhafar framkvæmdarvaldsins líka þingmenn. Ég tel að vísu að það sé röng skipan mála, en það er svo. Þess vegna finnst mér ekki óeðlilegt þó að ráðherrar sem þingmenn komi líka til umræðu undir þessum lið. Hv. þingmenn vita hvernig ég leysi það. Ég mæti jafnan og sit hér og hef stundum blandað mér í umræður um störf þingsins. Það hefur að vísu orðið til þess að geð félaga minna í stjórnarandstöðunni hefur ekki alltaf hýrnað.

Ég kem þó aðallega hingað til að segja að ég tek líka undir með hv. þingmanni og varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Ég tel að ráðherrar eigi að vera hér sem oftast og svara þinginu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar og segi það hér að ég tel að breyta eigi hinum óundirbúna fyrirspurnatíma þannig að allir ráðherrar sem eru á landinu og hafa tök á að koma eigi jafnan að mæta í báða hina vikulegu fyrirspurnatíma. Það er mín skoðun.