138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi óundirbúna fyrirspurnatíma hef ég yfirleitt reynt að mæta í þá alltaf þegar ég hef verið hér á landi og á þessu landshorni. Ég hef að vísu stundum haft visst samviskubit út af því að ég hef fengið allar fyrirspurnirnar og aðrir ráðherrar sem hafa setið hér prúðir dögum saman hafa ekki haft mikið að gera. En það verður að hafa það.

Ef þessi umræða á að vera málefnaleg komumst við ekkert áfram með útúrsnúningum. Að sjálfsögðu gerir enginn athugasemdir við það að undir þessum lið eigi þingmenn í innbyrðis skoðanaskiptum. Ég tek undir með hv. þm. Atla Gíslasyni. Það er kjörið að ræða störf nefnda, spyrja formenn út úr eða taka fyrir stór mál sem þingið vill láta sig varða sem slíkt og tengjast starfsemi þess.

Þetta er komið út í annað. Ef menn nota þetta tækifæri til að taka upp einstök ummæli ráðherra eða aðgerðir, beina nánast allri ræðu sinni að viðkomandi ráðherra, bera hann sökum en að nafninu til spyrja annan mann úti í salnum er það krókótt leið. Það er svo óhreint, það er svo miklu nær að nota þau þinglegu úrræði (Forseti hringir.) sem þingmenn hafa til að eiga skoðanaskipti við handhafa framkvæmdarvaldsins í salnum beint. Það er miklu stórmannlegra.