138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir það sem hv. þm. Atli Gíslason sagði áðan um þennan fyrirspurnatíma. Hann er mikilvægur. En ég tek líka undir það sem hæstv. fjármálaráðherra sagði, það þarf að breyta honum. Hvers konar breytingar? er spurt. Það þarf að mínu viti annaðhvort að takmarka þennan umræðutíma við tvö eða þrjú eða fjögur umræðuefni eða breyta honum í eiginlegan fyrirspurnatíma þar sem viðmælandi og fyrirspyrjandi geta komið tvisvar upp hvor um sig. Það er ekki góður svipur á því eins og nú er að farið sé í gegnum mjög mörg mál án þess að þeir sem eru bornir sökum fái að koma sér til varnar.

Ég kallaði fram í áðan að það væri heigulsháttur að kalla til þingmenn til að vera til andsvara fyrir ráðherra eða fyrir aðra þá sem ekki kæmust að í umræðunni. Ég stend við þau orð. Ég hef í þrígang orðið fyrir því (Forseti hringir.) að menn hafa reynt að tala við mig í gegnum aðra þingmenn eða jafnvel ráðherra. Ég kalla það heigulshátt því að ég get alveg (Forseti hringir.) hreint staðið fyrir mínu máli.

Frú forseti. Ég óska eftir því að fá að taka aftur til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta.