138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

128. mál
[14:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég fagna orðum hæstv. fjármálaráðherra, að hæstv. ríkisstjórn ætli að gera bragarbót á þessu. Það er nauðsynlegt að vinnumarkaður sé sveigjanlegur allur, líka sá opinberi. Áminningarskyldan hefur t.d. gert það að verkum að það er afskaplega erfitt fyrir forstöðumenn að breyta rekstri fyrirtækja ríkisins. Þeir eru þar af leiðandi undanskildir ábyrgð því þeir geta vísað í það að þeir geti í rauninni ekki stýrt fyrirtækjum sínum með þeim hætti sem núverandi ástand krefst.

Ég get ekki talað um þetta án þess að nefna að það er félagaskylda hjá opinberum starfsmönnum. Þeim ber að borga iðgjald í stéttarfélag, hvort sem þeir vilja vera þátttakendur í því eða ekki. Þetta er andstætt stjórnarskránni og ég vil að hæstv. fjármálaráðherra skoði það í leiðinni þegar hann fer að breyta þessum reglum.