138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

128. mál
[14:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hafi í huga við alla vinnu að þessum málum að starfsumhverfið, réttindi manna og út af fyrir sig skyldur og vinnuöryggi og allt sem þessu tengist, er hluti af kjaraumhverfinu. Það er bundið í lög að um breytingar á þessum þáttum eigi að eiga samráð við stéttarfélögin sem eðlilegt er.

Varðandi pólitíska aðstoðarmenn ráðherra er því til að svara að þeir eru pólitískt ráðnir, þeir eru pólitískir samstarfsmenn ráðherrans og þeir starfa eðli málsins samkvæmt á ábyrgð hans. Ég held að siðareglurnar sem verið er að koma með til þingsins séu til bóta í þessum efnum sem og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, að mönnum sé gert skylt að veita upplýsingar um fjármál sín og hagsmunatengsl og annað í þeim dúr. Allt eru það nýmæli sem hrundið hefur verið í framkvæmd eða stendur til að gera.

Það getur að sjálfsögðu verið sjónarmið, og á rétt á sér upp að vissu marki, að lagaumhverfið skipti máli þegar verið er að tryggja framkvæmd fjárlaga, ábyrgð og annað í þeim dúr. Ég held að það vanti í sjálfu sér hvorki valdheimildir né tæki í þeim efnum. Það mikilvægasta í því er að ná upp samstarfsanda um verkefnið og það verður að gerast með viðkomandi forstöðumönnum og starfsmönnum en ekki með valdboðinu einu saman að ofan. Það held ég að reynslan sýni. Þess vegna tel ég að það sem gert hefur verið, t.d. með því að efna til formlegs samstarfs með Félagi forstöðumanna og fá þá með í verkefnið, sem og virkja starfsfólk almennt, sé tvímælalaust rétt nálgun.

Ég held að það sé ekki vandamál í sjálfu sér að það liggi ekki algerlega ljóst fyrir til hvers lög og reglur standa í þessum efnum, að mönnum beri að halda sig innan fjárheimilda, og hvar ábyrgðin liggur í þeim efnum hjá ábyrgðarmönnum viðkomandi rekstrar. (Forseti hringir.) Verkefnið er að tryggja að þetta sé gert, að þetta gangi eftir. Þar hafa menn haft langan tíma, sumir hverjir, (Forseti hringir.) sem hér bera fram fyrirspurnir til að gera úrbætur.