138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

kennarastarfið.

138. mál
[14:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Menntun er fjárfesting einstaklinga og þjóðfélagsins í því að byggja upp mannauð og mannauðurinn er verðmætasta eign hverrar þjóðar. Þess vegna er menntunin afskaplega mikilvæg sem og sú spurning sem hér er komið inn á.

Það eru ekki bara laun sem skapa starfsumhverfi fólks, heldur líka starfsgleði, hvatning og það hversu mikið menn geta mótað umhverfi sitt. Ég held að hæstv. menntamálaráðherra ætti að vinna með kennarasamtökum í því að bæta þetta umhverfi. Það þarf ekki endilega að kosta mikið, frekar t.d. að menn hafi meiri mótunaráhrif á umhverfi sitt og fái meiri viðurkenningu. Það liggur í eðli starfsins, þar er kennarinn einn með hóp af börnum eða unglingum og enginn er til frásagnar nema börnin. Það er enginn sem metur starfið og segir: Þetta er frábær kennari eða hann er lakur kennari eða eitthvað slíkt. Ég verð var við að það er oft mikil kulnun í starfi hjá ungum kennurum sem koma inn í starfið af miklum áhuga en gefast upp (Forseti hringir.) eftir smátíma vegna þess að þeir hafa ekki nein áhrif.