138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

kennarastarfið.

138. mál
[14:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel mjög mikilvæga. Við erum að leyfa okkur nokkuð sem við í þinginu gerum kannski allt of sjaldan, að reyna að hugsa um hvernig við getum passað upp á það sem fyrir er um leið og við styrkjum þær grunnstoðir okkar sem skipta okkur svo miklu máli, eins og menntakerfið til lengri tíma litið.

Ég tek undir margt sem kom fram. Við þurfum að styrkja sjálfsmynd kennara. Við þurfum að styrkja ímynd og efla virðingu kennarastarfsins en þarna þurfa allir að koma að máli, Kennarasambandið, ríkið og sveitarfélögin. Við þurfum að spyrja um gæði kennslu og við þurfum að spyrja okkur ögrandi spurninga eins og við vorum að ræða áðan, t.d. hvort kjarasamningarnir stuðli að því að það sé ekki nægilega hvetjandi fyrir kennara. Mig langar að fá viðhorf hæstv. menntamálaráðherra til kjarasamninga sem og kjarasamningaumhverfisins eins og það hefur verið fram til þessa. Um leið beini ég því til hæstv. ráðherra að ég tel mikilvægt að ráðuneytið hafi forgöngu um samráð eða vinnufund með sveitarfélögunum núna þegar þau standa frammi fyrir erfiðum fjárhagsáætlunum og fjárlagagerð, framfylgni þeirra.

Grunnskólamálin eru stærsti útgjaldaliðurinn hjá sveitarfélögunum og það er ekki sama hvernig skorið er niður. Við vitum að það þarf að skera niður en það er ekki sama hvernig skorið er niður og þess vegna finnst mér mikilvægt að við höfum þessi ákveðnu leiðarljós til lengri tíma í huga. Hluti af því er spurningin: Hvernig stuðlum við að eflingu kennarastarfsins á þessum tíma? Ég held að það sé ákveðið andrými núna. Það er ekki þessi spennitreyja um hugsanlegt yfirvofandi kennaraverkfall eða eitthvað slíkt. Við höfum ákveðið andrými, við höfum mikinn velvilja og við höfum mikinn metnað allra, þvert á flokka og þvert á bæjarmörk. Þetta er nokkuð sem ég tel að við eigum að nýta okkur núna og leyfa okkur að spyrja okkur öll sjálf krefjandi spurninga í þessa veru: Hvernig getum við sameinast (Forseti hringir.) um það að styrkja og efla kennarastarfið til lengri tíma?