138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

178. mál
[15:12]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna þeirri fyrirspurn sem hér er komin fram. Það er mjög mikið rætt um atvinnuleysi ungs fólks á Norðurlöndum um þessar mundir og það er að verða mjög víðtækt vandamál hversu mörg ungmenni eru atvinnulaus þar. Þar er mjög mikið lagt upp úr því að reyna að halda virkni hjá þessum hóp af því að ef hann fellur í dróma er mjög erfitt að ná virkninni upp aftur. Ég fagna því að við séum að ræða þessi mál og ég tel að við þurfum að taka markvisst til hendinni til að við lendum ekki í sömu aðstöðu og við sjáum koma upp á Norðurlöndunum þar sem tugir prósenta ungmenna eru atvinnulaus. Við skulum reyna að nýta skólakerfi okkar eins og við getum og öll önnur úrræði sem tiltæk eru.

Þeir sem hafa farið mikið um t.d. í Noregi verða varir við að þar vinna mjög mörg sænsk ungmenni við þjónustustörf. Þessi sveigjanlegi atvinnumarkaður á Norðurlöndum er að skila einhverju en þetta er stórt vandamál og mikið til umræðu á Norðurlöndunum og við skulum vara okkur hér að lenda ekki í sömu sporum.