138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

stuðningur við atvinnulaus ungmenni.

178. mál
[15:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir hennar góðu svör. Í máli hennar komu fram mörg mjög góð markmið um það hvert við stefnum í þessu erfiða máli.

Ég verð að viðurkenna að ég hef ákveðnar áhyggjur af því að í þeim góðu úrræðum sem við bjóðum upp á fyrir þennan mikilvæga hóp verði kröftum og fjármagni dreift of mikið. Það er sem sagt mjög mikilvægt að við höfum ungmennin alltaf efst í huga, ekki hagsmuni stofnana eða annarra aðila, svo fjármagnið nýtist þessu unga fólki fyrst og fremst. Ég er mjög upptekin af því að við reynum að nýta framhaldsskólakerfið sem best, og í nafni skóla án aðgreiningar finnst mér eðlilegt að það skólastig sem á að þjóna hverju aldursstigi þjóni öllum nemendum sínum. Það er eðlilegt að öll mannflóran eigi fulltrúa alls staðar. Til þess þarf auðvitað að búa til stuðningsnet með svolítið misstórum möskvum og auðvitað kostar það sitt, en við höfum líka sett heilmikla fjármuni í verkefnið. Ég er mjög upptekin af því að þeim fjármunum verði varið í þágu þessara ungmenna fyrst og síðast.

Við sem höfum starfað að sveitarstjórnarmálum munum eftir, eða a.m.k. man ég það, að við settum ýmislegt á fót í fyrravetur en því miður nýttist það ekki. Mig langar til að ítreka það sem hæstv. ráðherra sagði: Þessir krakkar þurfa miklu meira en tilboð, þau nýta sér ekki tilboð. Hlaðborðið er drekkhlaðið en því miður virðast þau ekki nýta sér þessi tilboð. Þess vegna tala ég um þessa einkaþjálfarahugmynd, ég held að þau þurfi einstaklinga til að hjálpa sér að þessu drekkhlaðna hlaðborði. Við þyrftum kannski að taka einhverja rétti af hlaðborðinu og nýta fjármagnið frekar í að bjóða þeim að gjöra svo vel með þeim hætti að þau nýti sér það.