138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

raforka til garðyrkjubænda.

148. mál
[15:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að leggja fram þessar spurningar. En ég undra mig á því — þar sem þetta er eitt af þeim fyrstu málum sem ég tók þátt í að ræða í iðnaðarnefnd þegar nýtt þing kom saman að afloknum kosningum í apríl þar sem virtist vera þverpólitísk samstaða um að grípa ætti til aðgerða — að komnir séu níu mánuðir án þess að neitt hafi verið gert. Garðyrkjubændur starfa hér í landi við þau starfsskilyrði að ekki verður lengur við það búið að sitja og bíða. Ég óska því eftir að reynt verði að leggja áherslu á að hraða þeirri vinnu, enn og aftur segi ég það hér.

Mig langar að leyfa mér að beina örstuttri fyrirspurn til hæstv. ráðherra um sama efni: Hvaða áhrif hefur það á garðyrkjuna á Íslandi ef draumur Samfylkingarinnar um aðild að Evrópusambandinu verður að veruleika? Verður þá heimilt að veita slíkar ívilnanir sem hér er spurt um af hálfu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar í raforkunni til þeirra bænda? Er það heimilt samkvæmt reglum Evrópusambandsins eða verður með þeirri aðgerð sjálfhætt að fara þá leið sem mér sýnist að hv. þingmaður sé að leggja til?