138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

raforka til garðyrkjubænda.

148. mál
[15:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og minna á að í tíð síðustu ríkisstjórnar var að frumkvæði mínu varið 50–60% meiri fjármunum til þess að lækka raforkuverð til garðyrkjubænda og var full þörf á. Vandinn sem við er að glíma núna er einkanlega sá að hin almenna niðurgreiðsla til raforku í dreifbýli hefur lækkað bæði að krónutölu og hlutfallslega á síðustu árum. Það hefur valdið því að raforkuverð hefur verið að hækka til garðyrkjunnar í landinu, sem að langmestu leyti er að kaupa raforkutaxta sína á þessum svæðum. Þessu er mjög mikilvægt að breyta. Það er mjög mikilvægt að menn hafi þann pólitíska kjark að forgangsraða í þessum efnum dreifbýlinu í hag.

Síðan vil ég vekja athygli á því að þrátt fyrir að auknum fjármunum hafi verið varið til niðurgreiðslu varðandi garðyrkjuna má ekki gleyma því að hæstv. ríkisstjórn beitti sér fyrir og fékk samþykktar reglur sem leiða til þess að raforkuverð í landinu er almennt að hækka. Það mun auðvitað bitna á garðyrkjubændum eins og öðrum. Menn verða því að hafa þetta allt saman í huga þegar þessi mál eru skoðuð. Það er búið að breyta skattalögum sem (Forseti hringir.) leiðir til þess að orkuverðið, m.a. til garðyrkjunnar, er að hækka.