138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

ráðstöfun tekna af VS-afla.

164. mál
[15:37]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín hljóðar svo:

Hvað eru tekjur af svokölluðum VS-afla miklar á þessu ári og hvernig hefur þeim verið ráðstafað til einstakra verkefna?

Þessi svokallaði VS-afli er í daglegu tali kallaður Hafró-afli. Nú er það þannig í lögum um stjórn fiskveiða að menn mega landa 5% af bolfiski í þennan sjóð sem skiptist þá þannig að 80% af þessum verðmætum fer inn í þennan AVS-sjóð og síðan 20% til útgerðar og sjómanna. Það sem vakir fyrir mér, og það hefur reyndar komið í ljós í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jóns Gunnarssonar, er að þessi afli er að aukast mjög mikið núna. Bara til að árétta það var hann á kvótaárinu 2007/2008 um 3.000 tonn en á síðasta kvótaári, 2008/2009, er hann kominn í 4.254 tonn. Það sem stingur kannski helst í stúf þar er að aðalaukningin í löndun á svokölluðum Hafró-afla er einmitt þorskur, þ.e. aukningin í þorski er um 850 tonn. Síðast en ekki síst eru tekjur Verkefnasjóðs sjávarútvegsins frá janúar til septemberloka 2009 472 millj. kr. en á sama tíma á árunum 2008 eru þær 383 millj. Tekjurnar hafa aukist um 90 millj. kr. Það er mín skoðun, virðulegi forseti, að það sem skýri þetta að vissu leyti sé röng aflaráðgjöf í þorski. Það segir dálítið mikið um ástandið á miðunum að menn þurfi að vera að landa þetta miklu magni af þorski inn í VS-aflann við það að ná í aðrar tegundir. Það er ákveðin skekkja í úthlutun á aflamarki. Þess vegna hef ég talað lengi fyrir því að menn mundu rétta þetta af.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um það að nú er þessu skipt í tvær deildir, svokallaða almenna deild og síðan samkeppnisdeild þar sem samkeppnisaðilar í þessum greinum fá úthlutun úr sjóðnum. Þessi sjóður hefur í samkeppnisliðnum verið að hækka ár frá ári, var í upphafi 2006 25 millj. kr. en er að tillögu ráðherra, sem hefur alræðisvald í því, 100 millj. kr. á árinu 2009. Það er því mjög mikilvægt að menn styrki þær stofnanir sem keppa um þetta fé þar, þær mörgu góðu stofnanir sem þar eru.

Ég hef haft þá hugmynd í dálítinn tíma að menn fengju ákveðið svigrúm innan þessa VS-afla, að menn mættu hugsanlega landa hluta af einhverjum prósentum inn í slysavarnarfélögin, og langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann væri tilbúinn að skoða það. Það er einu sinni þannig, virðulegi forseti, að þegar við sjómenn lendum í áföllum eru slysavarnarfélögin og Landhelgisgæslan yfirleitt þeir einu sem geta bjargað okkur. Mig langar því að bera það undir hæstv. ráðherra hvernig honum lítist á þá hugmynd að breyta lögunum í þá veru að menn hefðu eitthvert smával um þetta.