138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

ráðstöfun tekna af VS-afla.

164. mál
[15:41]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir þessa fyrirspurn um svokallaðan VS-afla og hvernig þeim upphæðum sem hafa komið inn vegna hans hefur verið ráðstafað. Ég vil fyrst minna á að samkvæmt 11. gr. laga um stjórn fiskveiða er skipstjóra fiskiskips heimilt að ákveða að allt að 0,5% af uppsjávarafla og 5% af öðrum afla, sem skipið veiðir á hverju fiskveiðiári, reiknist ekki til aflamarks skipsins. Halda verður afla aðgreindum um borð í skipinu og selja á viðurkenndum uppboðsmarkaði. 20% af andvirði skiptast milli útgerðar og áhafnar og 80% renna í Verkefnasjóð sjávarútvegsins.

Um verkefnasjóðinn gilda lög nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, og segir í 1. gr. laganna að verja skuli fé úr honum til rannsókna og nýsköpunar á sviði sjávarútvegs og til eftirlits með fiskveiðum. Úrræði þessu var komið á til að auka sveigjanleika í fiskveiðistjórninni og minnka hættu á brottkasti.

Stjórn Verkefnasjóðs sjávarútvegsins er tvískipt. Annars vegar er það almenn deild og hins vegar samkeppnisdeild. Þrír menn sitja í stjórn hvorrar deildar. Almenn deild úthlutar styrkjum til verkefna sem falla undir verkefnasvið og eru á vegum Hafrannsóknastofnunar, Fiskveiðieftirlits, Fiskistofu, Veiðimálastofnunar, Matís og rannsóknasjóðs um aukið verðmæti sjávarfangs. Deild um sjávarrannsóknir á samkeppnissviði úthlutar styrkjum til verkefna sem sótt er um á grundvelli auglýsinga sjóðsins í fjölmiðlum um styrki til verkefna sem efla rannsókna- og þróunarverkefni á lífríki hafsins og samkeppnishæfni sjávarútvegs. Verkefnasjóður samkeppnisdeildar auglýsti í desember eftir umsóknum um styrki og ákveðið var að veittir yrðu styrkir samtals fjárhæð 100 millj. kr. í þetta sinn. Fimmtíu umsóknir bárust og er umsótt styrkfjárhæð 225 millj. kr. Stjórn samkeppnisdeildarinnar hefur nú þessar umsóknir til umfjöllunar.

Tekjur Verkefnasjóðs sjávarútvegsins af svonefndum 5% afla fyrir tímabilið janúar til nóvemberloka 2009 eru 534 millj. kr. Tekjur á sama tímabili árið 2008 námu 442 millj. kr. Aukningin stafar fyrst og fremst af því að skipstjórar hafa í auknum mæli notfært sér þetta úrræði, samanber ýmsar tölur sem ég get rakið. Ef við berum saman árin 2008 og 2009 þá er þorskur, eins og hv. þingmaður minntist á, 2.890 tonn árið 2008 en 2.688 tonn árið 2009. Menn voru að nefna nokkrar tegundir eins og steinbít 105.524 tonn 2008, 131.510 tonn árið 2009. Það er auðvitað nokkuð sérstakt með karfann en þar eru 57.912 tonn árið 2008 en 181.447 tonn 2009. Eins og hv. þingmaður gat um eru þetta 3.128 tonn árið 2008 en 4.113 tonn árið 2009.

Ég get tekið undir það sjónarmið hjá hv. þingmanni að þessar tölur og það sem þarna er verið að tala um segir okkur annars vegar að aukið kapp er lagt á að koma með allan afla að landi og þessi heimild hefur orðið til að svo væri gert í enn ríkari mæli, hafi það ekki verið gert nægilega ríkulega fyrir. Einnig getur það líka speglað ákveðinn vanda í tegundasamsetningum og öðru í veiðum við einstök skilyrði. Ég skil það alveg með sama hætti og hv. þingmaður. Ef við lítum á hvernig þessu fé hefur verið ráðstafað þá hefur þessum peningum á árinu 2009 verið ráðstafað á þann veg að til Hafrannsóknastofnunar, til ýmissa verkefna sem greint er frá, m.a. á heimasíðu sjóðsins, 289 millj. kr. Til annarra stofnana, eins og Veiðimálastofnunar, Fiskistofu, og sérstakrar vottunar á fiskafurðum, eru veittar 19,7 millj. kr. og 16 millj. kr. Úthlutun úr samkeppnisdeild var árið 2009 74 millj. kr., eins og ég sagði áðan. Í það hefur verið bætt 30 millj. kr. núna samkvæmt þeirri ákvörðun sem ég greindi frá áðan. Samtals hefur verið ráðstafað árið 2009 399 millj. kr.

Herra forseti. Ég get svo komið frekar að öðrum atriðum í seinni ræðu.