138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

ráðstöfun tekna af VS-afla.

164. mál
[15:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir spurninguna og sömuleiðis hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er mikilvægt að varpa ljósi á þennan sjóð sem hefur verið við lýði í allnokkur ár og var á sínum tíma settur til að reyna að koma í veg fyrir brottkast. Ég held að það sé engin spurning að þessi aðferð, jafnframt því ákvæði í fiskveiðistjórnarlögunum að heimila mönnum að draga helminginn frá í sambandi við undirmálsfisk, hefur orðið til að draga úr brottkasti, enda sjáum við það á öllum athugunum sem hafa verið gerðar, t.d. af Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, í könnunum meðal sjómanna, að þróunin er sem betur fer sú almennt talað að dregið hefur úr brottkasti. Það er ástæða til að undirstrika það og ég held að við eigum að reyna að beita aðferðum af þessu tagi til að reyna að minnka brottkast á Íslandsmiðum frekar en horfa stöðugt til þess að auka eftirlit. Menn vilja ganga vel um auðlindina. Sjómenn verða þá að hafa tiltæk úrræði til að geta brugðist við við sérstakar aðstæður. Það er rétt sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson segir, í þessum aflaákvörðunum núna er sjómönnum vandi á höndum og þess vegna er úrræði eins og þetta mjög mikilvægt.