138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

togararall.

182. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og menn vita hefur verið mikil umræða undanfarin ár um svokallaða fiskveiðiráðgjöf og því fer fjarri að menn séu á eitt sáttir um hana. Það er einfaldlega þannig að það er mikil tortryggni ríkjandi í þessum efnum og að mínu mati er gríðarlega mikilvægt að reyna að setja þessar deilur niður. Það er hins vegar hægara sagt en gert og hægara um að tala en í að komast. En einn hluti af því er að reyna að betrumbæta þau tæki sem menn hafa og gera það þannig að menn kalli til og kalli eftir sjónarmiðum ekki bara vísindamanna heldur líka útgerðarmanna og sjómanna. Ef það er ekki gert verður einfaldlega til tortryggni sem ekki verður eytt.

Á árinu 2007 var ákveðið að fara yfir svokallað togararall. Eins og menn vita gegnir togararallið gífurlega miklu hlutverki við stofnstærðarmat á botnfiski, fer fram eftir áramótin og niðurstöður þess liggja mjög til grundvallar við aflaráðgjöf í ýmsum tegundum. Þetta togararall er býsna gamalt. Það var á sínum tíma sett upp í samstarfi sjómanna og vísindamanna en það hefur hins vegar orðið fyrir vaxandi gagnrýni og mjög margir hafa orðið til að draga í efa trúverðugleika þess. Það sem menn hafa horft sérstaklega á er tvennt. Menn hafa sagt: Það er verið að draga eftir eldgömlum togpunktum sem gefa ekki neina mynd af því sem er að gerast í lífríki hafsins. Hitt sem menn hafa bent á er að við þetta togararall séu menn að nota úrelt veiðarfæri, troll sem engum mundi detta í hug að dýfa í sjó, a.m.k. ekki ef þeir ætluðu að fiska eitthvað í það. Þetta hefur kannski verið kjarni þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram.

Ég ákvað þess vegna á sínum tíma, árið 2007, að setja á laggirnar starfshóp til að fara yfir þessi mál. Sá starfshópur var skipaður fjórum fulltrúum Hafrannsóknastofnunarinnar, undir forustu Jóns Sólmundssonar fiskifræðings, en auk þess sátu í hópnum fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambandsins, skipstjórarnir Páll Halldórsson og Birgir Sigurjónsson, frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna útgerðarmennirnir Guðmundur Kristjánsson og Kristján Vilhelmsson og frá Landssambandi smábátaeigenda Arthur Bogason. Þeir áttu að hafa það hlutverk að fara skipulega yfir framkvæmd og niðurstöðu togararallsins undangenginna 20 ára með það í huga að betrumbæta verkefnið, gera tillögu þar um og laga að nýjum aðstæðum, m.a. þeim miklu umhverfisbreytingum sem hafa orðið í hafinu undanfarin ár. Markmiðið er að samstaða geti skapast um fyrirkomulagið og að okkur takist að vinna sem best úr þessum rannsóknum í þeim tilgangi að auka áreiðanleika þeirra.

Af þessu tilefni hef ég spurt hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvort niðurstaða þessa hóps liggi fyrir og ef svo er hverjar þær tillögur séu sem hann hefur komið fram með og í öðru lagi hvaða breytingar hafi verið gerðar á fyrirkomulagi togararallsins í framhaldi af endurskoðun þess og með hliðsjón af sérstökum fjárveitingum upp á 150 millj. kr., 50 millj. á ári í þrjú ár, sem var ætlað að auka gæði þessara rannsókna.