138. löggjafarþing — 73. fundur,  3. feb. 2010.

togararall.

182. mál
[16:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan: Fyrstu viðbrögð við vinnu þessa starfshóps var að fjölga stöðum þar sem prufur voru teknar. Í sjálfu sér eru það sömu atriði sem verið er að mæla og sömu atriði sem verið er að skoða. Saga togararallsins hefur farið fram með stöðluðum hætti í 25 ár og með því að hafa það svona staðlað fást líka, að mati þeirra sem að því standa, mikilvægar samanburðarupplýsingar sem eru þá nýttar í mati á stofnstærð og hvað sé að gerast.

Hitt er svo alveg eðlilegt að það kerfi sem notað er fái á sig gagnrýni, menn vilji fá ítarlegri rannsóknir, menn vilji fá þær öðruvísi. Ég tel eðlilegt að fara stöðugt ofan í þessi mál. Við erum með takmarkað fjármagn til þessara verkefna, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á, þannig að það þarf að forgangsraða í þeim efnum. En það að nýta upplýsingar frá rækjuröllum og frá netaröllum, frá öðrum rannsóknum varðandi veiðarfæri og annað því um líkt — menn telja að með því að nota botnvörpu sleppi smáfiskurinn fram hjá o.s.frv. þannig að það eru ýmis atriði sem eru álitaefni.

Það er afar mikilvægt fyrir okkur, sem erum svona stór fiskveiðiþjóð, og byggjum afkomu okkar á sjávarútvegi og fiskveiðum, (Forseti hringir.) að við getum stundað þessar rannsóknir á sem bestan hátt þannig að við fáum sem öruggastar og bestar upplýsingar (Forseti hringir.) um stöðu fiskstofnanna á hverjum tíma.