138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

virkjunarkostir og atvinnuuppbygging.

[10:34]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni, Þjórsá og virkjanirnar í neðri hluti Þjórsár eru inni í ferli rammaáætlunar. Það var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem setti Þjórsárvirkjanir í það ferli og því ferli fer senn að ljúka. Þá kemur niðurstaða úr rammaáætlunarvinnunni og síðan mun sú umræða færast inn í þingið þar sem tekist verður á um einstaka kosti. Vonandi næst þverpólitísk samstaða um þá niðurstöðu að mestu leyti.

Virðulegi forseti. Það eru fjölmargir aðrir kostir á borðinu og ef við horfum ekki til kostanna sem á borðinu eru hjá Orkuveitu Reykjavíkur og líka hjá HS Orku heldur eingöngu til Landsvirkjunar er auðvitað risastórt svæði í Þingeyjasýslunum. Það hlýtur að gleðja hv. þingmann að það er settur mikill fókus núna á svæðin fyrir norðan vegna þess að það er alveg ljóst að það næsta í tíma og mesta magn af orku sem við getum sótt verður á því svæði. Stóra verkefnið núna hvað það svæði varðar eru markaðs- og kynningarmál þannig að við förum að beina sjónum og augum fjárfesta inn á það svæði og að þeirri orku.

Síðan er auðvitað Búðarhálsvirkjun eins og hv. þingmaður veit og það er von mín að á næstu vikum geti einhverjar undirbúningsframkvæmdir farið þar af stað. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, það er gríðarleg eftirspurn fjárfesta núna eftir því að kaupa græna orku af okkur Íslendingum þannig að við erum bjartsýn. En ferlið við Þjórsárvirkjanir settum við af stað árið 2007, ríkisstjórn flokka okkar hv. þingmanns. Þar er það nú og sér loks fyrir endann á því, enda er ætlunin að rammaáætlun verði skilað núna í lok þessa mánaðar og síðan í framhaldinu muni (Forseti hringir.) þetta mál fara í kynningu.