138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

virkjunarkostir og atvinnuuppbygging.

[10:36]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar. Það gleður vissulega mitt litla hjarta að Norðurland geti orðið þjóðinni til hjálpar á þessum erfiðu tímum. Það dugar þó ekki til svars fyrir þau verkefni sem hafa beðið í alllangan tíma og snerta m.a. uppbyggingu gagnavers og stóriðju á Suðurnesjum. Þau áform eru við þennan úrskurð í algeru uppnámi því að ekki munum við Norðlendingar standa eilíflega í því, hvort heldur er á Norðurlandi vestra eða eystra, að flytja orkuna og lífsbjörgina suður. Það eru gríðarleg átök uppi um þá virkjunarkosti og þá möguleika sem eru í stöðunni og við höfum dæmi um það, þó að dagsformið geri menn stundum dálítið æsta sjáum við mjög hörð viðbrögð, m.a. Samorku, við þessum úrskurði, líka sveitarstjórnarmanna og jafnvel hafa menn gengið svo langt að fullyrða að umhverfisráðherra skilji ekki eðli endurnýjanlegrar orku þar sem hún hafi velt því upp að núverandi kynslóðir megi ekki ráðstafa (Forseti hringir.) öllum mögulegum virkjunarkostum eins og ekki væru fleiri kynslóðir í landinu. En ég kalla eftir því hvaða möguleika (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra sjái á þeirri uppbyggingu sem mest hefur verið knýjandi á suðvesturhorninu líka.