138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

skuldir og skuldbindingar sveitarfélaga.

[11:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta nema að minna á það sem ég sagði áðan um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Auk þess er tímamótavinna í gangi sem líka hefði átt að vera búið að gera fyrir lifandi löngu, vinna á vegum fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Það var ákveðið eftir samráðsfund okkar hæstv. fjármálaráðherra með stjórn sambandsins í fyrrahaust að leggja pening og vinnu í að búa til fjármálareglu fyrir sveitarfélögin. Það hefði betur verið gert fyrr. (Gripið fram í: Því var það ekki gert?) Vegna þess að sveitarfélögin voru ekki samstiga um það og vildu það ekki þrátt fyrir tillögu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga á sínum tíma.

Varðandi það sem hv. þingmaður fjallaði um, að þetta væri í ársreikningum 2009, get ég tekið undir það. Það var mín skoðun að það ætti að vera sérstök lína þar sem þetta væri tekið inn, þ.e. hvernig byrjað yrði með efnahagsreikning árið 2010. Margir sérfræðingar sáu tormerki á því en aðalatriðið er að við vinnu eftirlitsnefndarinnar (Forseti hringir.) kemur þetta fram og er tekið inn vegna þess að það er rétt sem hv. þingmaður segir, það er rétt að kjósendur (Forseti hringir.) í viðkomandi sveitarfélögum hafi skýra mynd af fjárhagsstöðu viðkomandi sveitarfélags fyrir komandi kosningar.