138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

athugasemd frá forseta.

[11:07]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég kem upp undir þessum lið í fullkominni vinsemd við frú forseta en geri athugasemd við fundarstjórn forseta. Ég varð vitni að því þegar forseti sló í bjölluna í miðri ræðu hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og stoppaði þingmanninn í ræðu sinni og held að frú forseti hafi einkum og sér í lagi verið að bregðast við frekar önugum fjármálaráðherra sem var búinn að vera furðu lostinn yfir því að hann hefði verið til umræðu í fyrirspurn hv. þingmanns. Mér finnst óviðeigandi að hæstv. fjármálaráðherra reyni að ritstýra því hvað hv. þingmenn segja í fyrirspurnum sínum og ég vildi, eins og ég segi, í allri vinsemd minna hæstv. forseta á að forseti er forseti allra þingmanna og á að bera sama traust til allra þingmanna, sama úr hvaða flokki þeir eru. Það hlýtur að vera hægt að gera þá kröfu á þessu háa Alþingi að við þingmenn fáum að klára hugsun okkar (Forseti hringir.) og fyrirspurnir án þess að vera trufluð bara vegna þess (Forseti hringir.) að einhverjir hæstv. ráðherrar kunna ekki að meta boðskapinn.