138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt og ritað um hinn mikla skuldavanda heimilanna á undanförnum missirum og er ekki vanþörf á að ræða þetta mikilvæga mál. Ég tel þó að forsenda þess að einhver sátt náist í samfélaginu sé að komið verði til móts við vanda heimilanna. Þessi alvarlega skuldastaða krefst þess að gripið verði til aðgerða sem fyrst. Við höfum talað um þetta mál frá því að þing kom saman og jafnframt á sumarþingi, að afloknum kosningum. Við stóðum flestöll í þessum sal saman að því að aðstoða við að koma frumvarpinu sem félagsmálaráðherra lagði fram í haust í gegnum þetta þing í ljósi þess að við töldum að það væru fyrstu skrefin í átt til þess að leysa þennan mikla vanda. Við þá umræðu kom fram að jafnframt væri gert ráð fyrir því að frekari úrræði kæmu til. Þess vegna er rétt að hæstv. félagsmálaráðherra fái tækifæri til að upplýsa okkur um það hvaða úrræði eru í farvatninu, hverjar eru helstu áherslur varðandi þau og hvenær þeirra sé að vænta. Ef ekki verður gripið til frekari aðgerða hið fyrsta dregst endurreisnin á langinn. Það er einfaldlega staðreynd.

Frú forseti. Þær aðgerðir sem þegar hafa komið til koma að einhverju leyti til móts við skuldavanda heimilanna en eru ekki fullnægjandi. Þau dæmi sem maður hefur því miður heyrt af fólki sem leitar sér úrræða á grundvelli nýju laganna gefa okkur það til kynna að þetta sé ekki fullnægjandi, að lögin séu alls ekki gallalaus og að virkilega mikið þurfi að laga til. Núna í morgun fékk ég enn eitt dæmið sent til mín um fjölskyldu sem ráðlagt var af bæði einum starfsmanni forsætisráðuneytisins og eins starfsmönnum í félagsmálaráðueytinu að leita til bankans síns og sækja um sérstaka skuldaaðlögun, en þessi fjölskylda hefur þrátt fyrir það og þrátt fyrir góðan vilja allra aðila utan bankans ekki fengið slíka meðhöndlun. Það er einfaldlega ekki tekið tillit til þess að m.a. eru á framfæri þessarar fjölskyldu unglingar í framhaldsskóla. Þetta sýnir okkur að fara þarf vel yfir þessi mál.

Við sjálfstæðismenn höfum lagt mikla vinnu í að skoða hvaða lausnir séu tækar í málinu. Það er algjörlega ljóst að það er auðveldara um að tala en í að komast að leysa þennan mikla vanda. Við höfum hins vegar sagt að það sé best að allir flokkar komi að því máli, einfaldlega vegna þess að þetta er mál sem snertir nánast allar fjölskyldur á Íslandi. Við eigum ekki að setja málið í þann farveg að við stöndum í þingsalnum og rífumst um það. Ég tel að það sé einfaldlega ekki boðlegt íslensku þjóðinni og það væri reyndar ágætt að hafa það viðmið í huga í fleiri málum, að við munum öll tileinka okkur slík vinnubrögð. Við skulum byrja á þessu máli og ég hvet okkur öll til þess.

Hæstv. forsætisráðherra stóð í þessum stól á mánudaginn og tilkynnti þingheimi að unnið væri að frekari úrræðum, bæði á vegum dómsmálaráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins, og þess væri að vænta að úrræði mundu kannski sjá dagsins ljós í næstu viku. Nú er maður orðinn spenntur að fá að vita hvað er í pípunum. Það hefði verið betra að allir flokkar hefðu fengið að koma að þessari vinnu sem er greinilega í gangi í ráðuneytunum þannig að við værum betur í stakk búin til að leita þessara sameiginlegu lausna. Ég hvet enn og aftur til að það sé gert.

Í öðru lagi finnst mér vert að athuga það að menn eru ekki samstiga í því hversu umfangsmikill þessi vandi er. Ég skil það vel vegna þess að það er erfitt að leita upplýsinga. Fjölmargir þingmenn hafa reynt að afla sér upplýsinga um það hver staðan raunverulega er hjá heimilunum og hversu umfangsmikill vandinn er vegna þess að þannig getum við áttað okkur betur á því hvaða úrræði þurfa að koma til. ASÍ hefur metið það svo að um 20% heimila séu í miklum vanda þrátt fyrir þessi nýju úrræði en forsætisráðherra sagði við sama tilefni og ég vitnaði til áðan, í þinginu á föstudaginn, með leyfi forseta:

„Ég skal ekki draga úr því sem hv. þingmaður heldur fram, vandinn er mikill en hann er ekki hjá mjög stórum hóp.“

Svo kom fram í viðtali við sama hæstv. forsætisráðherra í Kastljósi í vikunni að þessi hópur væri að hennar mati 10–15% heimila. Ég veit ekki hver þessi prósenta er, en ég tel að hópurinn sé stærri en 10% og ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra: Er verið að vinna að einhverri úttekt á því að greina þennan hóp eins og gert var á vegum Seðlabankans í febrúar á síðasta ári? (Forseti hringir.) Er sambærileg vinna farin í gang, hvert er umfang vandans að mati ráðherra, hvaða úrræði eru í pípunum og hver verður aðkoma stjórnarandstöðunnar að þeim málum?