138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:27]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Frú forseti. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra talaði um að þörf væri viðhorfsbreytingar gagnvart skuldurum og gagnvart þessu málefni sem hér er verið að ræða. Ég ætla ekki að draga úr því að það er ástæða til að gera miklar breytingar á þeim atriðum sem varða stöðu skuldara í landinu og ég get tekið undir það hjá hæstv. ráðherra að nokkuð hafi hallað á skuldara. Ég verð samt að segja að við höfum varla tíma til að bíða eftir því að sú viðhorfsbreyting verði og að bankarnir nái að laga sig að þeim breyttu viðhorfum sem við munum fara fram á í þingsal. Við höfum því miður ekki tíma til þess.

Þess vegna langar mig til að inna hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra eftir því hvernig hann hyggist bregðast við þeim vanda sem við blasir um næstu mánaðamót þar sem við sjáum fram á auknar uppsagnir, fjöldauppsagnir víða um land, uppsagnir í stórum og smáum fyrirtækjum. Við sjáum fram á vaxandi örvæntingu hjá íslenskum heimilum um þessi mánaðamót og þau næstu. Frystingin er að fara. Örvæntingin er að koma í ljós. Við vitum alveg hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenskt efnahagslíf. Þetta dregur allt úr getu okkar til að komast út úr vandanum. Við þurfum á því að halda, Íslendingar, að íslensk heimili séu í stakk búin til að takast á við endurreisnina vegna þess að þetta þurfum við allt að gera saman.

Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir samráði við ríkisstjórnina um þetta mál. Það er alveg rétt að það hefur á margan hátt tekist þokkalega vel. Við þurfum að gera betur og verðum að taka höndum saman í þessum sal um að takast á við þennan vanda núna. Það getur vel verið að það sé bara kominn tími til að við horfumst í augu við það að við þurfum að fara í róttækari aðgerðir en við töldum til að koma þessum heimilum upp úr þeim hjólförum sem fólk er komið í. Ég get ekki hugsað það til enda ef næstu mánuðir verða eitthvað í líkingu við það sem orðið getur með vaxandi uppsögnum, vaxandi vanda. Ég óttast það mjög (Forseti hringir.) að örvænting hjá íslenskum heimilum verði þannig að allt þetta verði til þess að draga úr getu okkar til að komast út úr þessum efnahagsvandræðum.