138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

staða fjármála heimilanna.

[11:29]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Í haust samþykkti Alþingi lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldmiðilshrunsins. Lögin samanstanda af greiðslujöfnun á húsnæðislán, sem er almenn aðgerð, og sértækri skuldaaðlögun fyrir heimili og fyrirtæki. Við lögðum ríka áherslu á að verja þyrfti hagsmuni lántakenda í fjárhagsvanda og því var lögfest sérstök eftirlitsnefnd með sértækri skuldaaðlögun. Nefndin á að fylgjast með og kanna að eigin frumkvæði hvort eftirlitsskyldir aðilar á fjármálamarkaði framfylgi samræmdum reglum og fylgjast með því að gætt sé sanngirni og jafnræðis milli skuldara. Eftirlitsnefndin mun skila skýrslu um framkvæmdina til ráðherra til kynningar á Alþingi fyrir 1. mars nk. Starfshópur er að störfum til að meta hvort lögin þjóni markmiði sínu. Í framhaldinu þarf löggjafinn að ákveða hvort grípa þurfi til róttækari aðgerða.

Frú forseti. Með hruni fjármálakerfisins og gjaldmiðilsins var ljóst að hér yrði veruleg lífskjaraskerðing. Efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar miðar að því að hraða batanum en engu að síður munu heimilin búa við þyngri greiðslubyrði lána, hærra verðlag og lægri laun. Með markvissum aðgerðum mun ástandið batna ár frá ári og markmiðið er að við komumst öll sem ein fjölskylda út úr efnahagsþrengingunum.

Flestir munu komast í gegnum þetta tímabil af eigin rammleik, en okkur ber skylda til að tryggja þeim heimilum sem ekki standa undir greiðslubyrði sinni viðunandi úrlausn. Ríkisstjórnin vinnur markvisst að því að allt svigrúm til afskrifta verði nýtt til að koma í veg fyrir að verst stöddu fjölskyldurnar lendi í fátæktargildru. Þar liggur skylda stjórnvalda.