138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[11:43]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Frumvarp ríkisstjórnarinnar sem hér er til umræðu um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, minnir um margt á marhnút í ætislausum polli. Þegar svo er háttað hjá marhnútnum þá siglir hann og stormar þvers og kruss á allt sem fyrir er. Það rekst hvað á annars horn af því að blessaður marhnúturinn hefur ekki æti.

Í frumvarpi þessu rekst hvað á annars horn. Minnir líka um margt á það tímabil í sögu Eþíópíu í kjölfar þess að Haile Selassie var felldur og stjórnendur landsins yfirtóku alla akra landsins sem voru víðast hvar í ágætisræktun, það var verðmætasköpun og atvinnusköpun, en það var slitið af þeim sem höfðu stjórnað því um langt skeið og lært af reynslu og færðu akrana til hinna óbreyttu starfsmanna sem áttu allt í einu að fara að verða atvinnurekendur. Þetta var falleg hugmynd en í reynd var hún þannig að menn sem eignuðust akrana á þennan hátt komu kannski einu sinni eða tvisvar á ári og löbbuðu um landið sitt en gerðu ekki neitt. Öll reynsla tapaðist og allt fór í órækt.

Það sem lögð er áhersla á í þessu frumvarpi, virðulegi forseti, er lauslæti, lausung og ábyrgðarleysi í því að eðlilegur rekstrargrundvöllur sé fyrir höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar. Það er það slæma. Hugmyndirnar eru fallegar á sinn hátt ef hægt væri að hrinda þeim fram, en þær eru jafnvitlausar og þegar hv. varaformaður sjávarútvegsnefndar sagði í þinginu að ef flotinn sigldi í land til að mótmæla fyrningarleiðinni fengju bara aðrir kvótann. Hvaða aðrir? Það er bara einn fiskveiðifloti á Íslandi og ef hann stendur saman um að fara í land til að mótmæla gerræðisákvörðunum ríkisstjórnarinnar þá er enginn annar floti, nema ríkisstjórnin sé í bakhöndinni með kínverskan flota eða sikileyskan eða hvað það væri. Hvers konar vinnubrögð eru þetta? Þessi vinnubrögð eru með slíkum fádæmum að það er skelfilegt að þurfa að hlusta á það og fylgjast með því, ekki síst í reynsluleysi sem kemur fram hjá mörgum þingmönnum sem standa að baki stjórnarflokkunum og vita hreinlega ekkert um hvað íslenskur sjávarútvegur snýst og hafa engan áhuga á að vita það af því að slorlykt er í loftinu.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að rugga bátnum sem veitir kjölfestuna í þjóðfélagi okkar, gefur 60% af þjóðartekjunum, þá er fjandinn laus, þá er hrun bara smámál miðað við það.

Það er samt sem áður alveg augljóst, virðulegi forseti, að gera þarf ákveðnar breytingar á þessu kerfi okkar, ákveðna snyrtingu og lagfæringu sem hefði mátt gera fyrir mörgum árum. Það hefur því miður ekki verið knúið nóg á um það, ekki af neinum aðilum, hvorki til lands né sjávar. Þetta verður vonandi hægt að gera í þeirri vinnu sem menn eru þó að reyna að vinna á skjön við það frumvarp sem hér er, með nefndarvinnu sem hæstv. sjávarútvegsráðherra stofnaði til með stofnun 18 manna hóps sem á að yfirfara ákveðna hluti og áherslur í fiskveiðistjórnarkerfi. (BVG: 23.) Þeir eru orðnir 23 segir hv. þm. Björn Valur Gíslason, það er ágætt. Þetta er það sem skiptir miklu máli í þessu. Það er náttúrlega með ólíkindum að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli leggja frumvarpið fram á sama tíma og verið er að ræða málið í þeirri fjölmennu nefnd. Það væri fróðlegt að heyra álit hv. þm. Atla Gíslasonar á því hvað honum finnst um þessi vinnubrögð. Hv. þm. Atli Gíslason er nákvæmur lögfræðingur og snjall, og er þá betra að hlutirnir séu gerðir í rökréttu samhengi, en þetta er bara til að æra óstöðugan. Það er ekki hægt að slíta þetta frá heildarskoðuninni sem menn eru að vinna að.

Segja má að frumvarpið hafi þann yfirlýsta tilgang að draga úr sveigjanleika og hagkvæmni í sjávarútveginum. Það er miður af því að á undanförnum áratugum við erfiðar aðstæður, endalausar skerðingar og þrengingar hefur sjávarútvegurinn orðið að laga sig að breyttum aðstæðum. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að margt má bæta í þessu, en það á ekki að raska hlutunum. Og þó til að mynda að farið væri í aukna veiðiskyldu hjá handhöfum kvótans þá á það ekki að raska hlutum í heild en mundi samt sem áður að mínu mati skapa markvissari fiskveiðistjórn og það er kannski það sem mest ósátt er um, þ.e. það atriði að ekki sé knúið á um að handhafarnir veiði meira sjálfir af þeim kvóta sem þeir hafa yfir að ráða til að afla tekna og skatta fyrir ríkissjóð.

Ef það er einhver grein á Íslandi sem er þjóðnýtt þá er það sjávarútvegurinn. Auðurinn sem við höfum verið að fjalla og deila um á hv. Alþingi undanfarin missiri liggur ekki hjá útgerðarmönnum, hann hefur legið hjá öðrum. Hann hefur legið hjá landkröbbunum. Það eru undantekningar þar sem hægt er að tala um auðinn í sjávarútvegi, eitthvað sem skiptir máli á þeim vettvangi. Því miður lentu þó nokkrir útgerðarmenn og fiskvinnslumenn í því að láta bankana blekkja sig til falsleiks og gróðavonar. Það hefur skapað vanda en sem betur fer er það lítill hluti af sjávarútvegsfyrirtækjum landsins.

Það er auðvitað rof hjá ríkisstjórninni á þeim griðum sem ríkisstjórnin lofaði að mundu ríkja um sjávarútveginn á meðan tóm gæfist til að fara ofan í helstu álitamálin í sjávarútvegsstefnunni. Það er rof að fara í þessar umræður og þennan þrýsting með því frumvarpi sem hér er til umræðu. Það er því mikilvægt og væri skynsamlegast að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mundi draga frumvarpið til baka á meðan 23 manna nefndin er að fjalla um þessi mál í heild og samræmi. Ef menn halda það í ráðuneytunum eins og kom fram hjá hv. varaformanni sjávarútvegsnefndar, Ólínu Þorvarðardóttur, að skötuselurinn sé nýbúi við Ísland og í ljósi þess sé hægt að taka sérstakar ákvarðanir núna, þá er það náttúrlega fyrst og fremst broslegt, broslegt þekkingarleysi og sakleysislegt. En skötuselurinn er búinn að vera miklu lengur við Íslandsstrendur en nokkur ár. Það eru nær 100 ár síðan byrjað var að veiða þennan fisk, sem til að mynda Bjarni Sæmundsson segir í bókinni Fiskarnir að sé mjög góður matfiskur. Hann segir það ekki um neinn annan fisk í bók sinni. En skötuselurinn er ekki nýbúi og réttlætir ekki að þetta sé tekið fyrir á þennan hátt sem nú er gert.

Það er líka mjög undarlegt að reiknað sé með að fara 80% umfram ábendingar Hafrannsóknastofnunar varðandi veiðimagn á skötusel. 80% er hátt hlutfall. Oft hafa menn deilt á Hafrannsóknastofnun og bent á að módel þeirra væri ekki neinn heilagur sannleikur. En fyrr má rota en dauðrota að fara 80% fram úr ábendingum þeirra vísindamanna sem þar starfa og hefði verið nær að bera saman bækur vísindamannanna og skipstjórnarmannanna, sjómannanna sem hafa um langt árabil unnið og starfað á skötuselsveiðum. Þekking þeirra er ekkert síðri en hinna mætu vísindamanna sem við leitum til hjá Hafrannsóknastofnun og víðar. Það eru vísindi í dag að vera skipstjórnarmaður með fjölbreyttan búnað um borð í skipum landsins sem eru í raun ekkert nema rannsóknartæki. Þar verða menn að leggja saman tvo og tvo. Þar verða fiskimiðin líka að koma inn og reynslan, sem er drýgst.

Það sem að mínu mati er gefið í skyn með frumvarpinu er innleiðing fyrningarleiðarinnar. Fyrningarleiðin mun hakka einyrkjana í landinu. Þeir sem standa hana eitthvað lengur af sér eru stórhvelin í atvinnustarfsemi okkar en einyrkjarnir verða blóðgaðir á borðstokknum með snöru handtaki. Hvaða áhrif hefur það svo í byggðum landsins? Nóg hefur hallað á einyrkjana, virðulegi forseti, þó ekki sé gengið lengra í því.

Síðan ákveðnar breytingar voru gerðar á fiskveiðistjórnarlögunum hefur á síðustu átta árum sérlega hallað á einyrkja á Íslandi. Í þeim breytingum sem þá voru gerðar var áætlað að taka þau mál upp, endurskoða þau og kanna hvaða áhrif þær breytingar sem gerðar voru hefðu á einyrkjana. Við það hefur ekki verið staðið af neinum sjávarútvegsráðherra síðustu tíu árin og væri æskilegt að hv. formaður sjávarútvegsnefndar, Atli Gíslason, hefði frumkvæði að því að skoða þessa þætti því að í atvinnumunstri okkar skipta einyrkjarnir gríðarlega miklu máli. Þeir eru í rauninni samtengingin á milli þess stóra og smáa í þessari öflugu atvinnugrein og því ástæða til að vanda til verka í þeim efnum og standa við það sem aðrir hafa lofað sem á undan komu en hefur ekki verið fylgt eftir og er þeirra skömm.

Í Morgunblaðinu í vikunni segir Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík, eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Atvinnuöryggi starfsfólksins er ástæða þess að ég hef bent á þá leið að stjórnvöld fyrni fremur hlutafé fyrirtækjanna en tekjugrunn þeirra. Hirði með öðrum orðum fyrirtækin en hlífi starfsfólki þeirra við þeirri óvissu sem gjaldþroti fylgir.“

Þetta eru alvarleg orð úr munni eins framsæknasta fiskvinnslumanns á Íslandi í dag, manns sem kemur beint úr grasrótinni, manns sem hefur þróast upp við erfiðar aðstæður í atvinnugreininni og skilað gríðarlega miklum árangri, eins og svo margir í þessu starfi víða um land, því ekki er mikið um að hálærðir menn sem byggja allt sitt á babli úr bókum stjórni fiskvinnslufyrirtækjum Íslands. Þar eru menn með reynslu, þekkingu, verksvit og þor. Meira þurfum við ekki í rauninni til að það gangi fyrir sig á eðlilegan hátt, alveg eins og gamall starfsmaður á Alþingi, Halldór Kristjánsson á Kirkjubóli, sagði á sínum tíma: Hús þarf að vera bjart, hlýtt og rúmgott. Flóknara er það nú ekki en þessi grundvöllur þarf að vera í lagi.

Áfram segir Pétur Hafsteinn Pálsson:

„Ég held enn í þá von að rökstuddur málflutningur þeirra sem vara við fyrningu aflaheimilda nái eyrum þeirra sem nú hafa örlög sjávarútvegsins í hendi sér. Ef ekki væri fyrir þessa von væri ég þegar búinn að gera starfsfólki okkar, mörgu til áratuga, ljóst hvaða áhætta fylgdi því að starfa áfram hjá okkur. Ég á mér þá ósk að enginn þeirra þúsunda starfsmanna sem vinna hjá sjávarútvegsfyrirtækjum um land allt þurfi nokkurn tímann að mæta á starfsmannafund þar sem þetta er fundarefnið.“

Hann segir einnig:

„Hjá tuttugu stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins í aflamarkskerfinu starfa 4.355 manns. Þau gera út 126 skip sem nýta 84% kvótans. Samhliða útgerðinni reka langflest þeirra fiskvinnslur í landi til að vinna aflann og sölustarf þeirra er margbrotið. Nánari skoðun leiðir í ljós að aðeins eitt þessara fyrirtækja er yngra en 30 ára, flest eru félögin um og yfir 40 ára og til eru fyrirtæki sem státa af starfsemi í meira en heila öld! Þau hafa þurft að laga sig að miklum breytingum á rekstrarumhverfinu og einnig glímt við áföll af ýmsu tagi undanfarna áratugi. Helsta lán þeirra er á efa að þeim hefur haldist vel á reyndu starfsfólki.“

Slíkri reynslu megum við ekki henda fyrir borð. Þótt mönnum leiðist einhver í samfélaginu þá hendir maður honum ekki fyrir borð. Það er ekki siður nútímasamfélagsins. Það hefði kannski gengið á Sturlungaöld.

Fyrir skömmu var stór fundur hjá sjómönnum í Vestmannaeyjum. Fimm hundruð sjómenn komu í land til að ræða og benda á hættuna af fyrningarleiðinni. Svo hafði einn hv. þingmaður á Alþingi orð á því í gær að þeir hefðu komið í land hvort eð var af því að það var bræla og hefðu þurft að fara í land. Fimm hundruð sjómenn koma ekki í land í einn dag og mæta á kvöldfund til að fjalla um þessi mál til þess eins að skemmta sér. Þeir koma til fundar með fullri alvöru. Þar var til að mynda ræðumaður, Eyþór Harðarson, sem skrifaði í Fréttablaðið fyrir nokkrum dögum grein um það að fyrningarleiðin væri ávísun á stórslys.

Eyþór Harðarson er skipstjórasonur, hefur lifað og hrærst í sjávarútvegi frá blautu barnsbeini. Hann er útgerðarstjóri í Ísfélagi Vestmannaeyja. Hann segir, með leyfi forseta:

„Enn er hægt að afstýra því stórslysi sem fyrningarhugmyndir stjórnvalda hefðu í för með sér fyrir sjávarútveginn og efnahag þjóðarinnar. Vilji til að kynna sér raunverulegar afleiðingar þessara hugmynda og horfast í augu við staðreyndir er allt sem þarf.“

Hann bendir einnig á að á síðustu 20 árum hafi 90% aflaheimilda skipt um hendur sem þýðir að mikil tilfærsla er á kvótanum og hefur skilað mikilli hagræðingu, traustri atvinnu, hærri tekjum og meiri möguleikum, bæði fyrir einstaklingana og þjóðfélagið í heild.