138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:04]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Mér finnst vel í lagt í umræðu um það frumvarp sem hér er til umræðu að telja það vera til þess fallið að leggja sjávarútveg á Íslandi á hliðina, þar verði rústir einar eftir með fjöldaatvinnuleysi og hræðilegum stórslysum þannig að hrunið sjálft verði hjóm eitt í samanburðinum. Mér finnst það vel í lagt að halda því fram og ég tel að menn eigi að fara varlega í slík ummæli og vera ekki að gjaldfella orð sín með þeim hætti.

Það frumvarp sem hér um ræðir er um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða frá árinu 2006 og er þar tekið á fjölmörgum atriðum. Ekki er tekið á einu atriði eins og margir vilja meina, þ.e. varðandi skötuselinn sem frumvarpið er kennt við, heldur fjölmörgum atriðum þar sem verið er að reyna að klípa agnúa af kerfi sem hefur verið afar umdeilt í áratugi. Ég ætla að hlaupa örstutt yfir þessi helstu atriði í frumvarpinu til að reyna að ná fram fleiri atriðum en hér hafa verið rædd fram til þessa.

Í frumvarpi um breytingar á lögum nr. 116/2006 er gert ráð fyrir breytingum á svokölluðum geymslurétti í þá veru að heimilt verði að flytja allt að þriðjung aflaheimilda milli fiskveiðiára og það fært ofan í 15% veiðiheimilda, þ.e. sú heimild sem fyrirtæki hefur haft til að flytja veiðiheimildir á milli ára er takmörkuð við 15%. Ráðherra hefur sömuleiðis heimild til að hækka þetta hlutfall ef ástæða þykir til og við sérstakar aðstæður. Þær sérstöku aðstæður geta auðvitað verið veiðiheimildir og úthlutun á heimildum á einstökum tegundum og þá megi auka þetta hlutfall, þess vegna á einstökum tegundum, á milli ára ef það þykir skynsamlegt hverju sinni. Um þetta atriði hefur verið rætt lengi og reyndar hafa verið gerðar breytingar á þessu á síðustu árum, síðast fyrir ári ef ég man rétt, þar sem þessi heimild var hækkuð úr 20% afla á milli ára upp í 33%. Það er því ekkert nýtt að verið sé að hreyfa við þessu ákvæði og reyndar er verið að fara með það nánast til baka frá því sem var fyrir réttu ári.

Ein ástæða þess að hlutfallið var hækkað á síðasta ári, eins og ég hef nefnt, var sú að menn þóttust sjá að ýsuheimildir yrðu lækkaðar verulega milli ára og því þætti rétt að auka möguleikana á að dreifa veiðiheimildum fyrra árs yfir á það næsta. Rökin fyrir því að lækka hlutfall þess sem heimilt er að færa aftur niður á milli ára, niður í þau 15% sem hér um ræðir, eru m.a. þau að veiði skuli á hverju ári vera eins nærri ráðgjöf og hægt er að fara, þ.e. að saman fari veiði og úthlutaðar veiðiheimildir hvers árs, eins nálægt því og mögulegt er. Veiðiheimildum er úthlutað til árs í senn samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar sem eru byggðar á rannsóknum um árlegt veiðiþol stofna og það er því fullkomlega rökrétt að veiðin á úthlutunartímabilinu sé sem næst úthlutuðum aflaheimildum, þ.e. að saman fari veiði og veiðiheimildir. Með þessu ákvæði er einnig verið að ýta undir að áætluð veiði samkvæmt hverri úthlutun skili sér í land á því ári sem veiðiúthlutunin nær til og þannig er reynt að tryggja meiri stöðugleika í sjávarútveginum.

Heimild til að flytja hluta aflaheimilda milli ára hefur verið nokkuð umdeild á undanförnum árum. Til að mynda mótmælti Landssamband smábátaeigenda því harðlega þegar þetta hlutfall var hækkað á síðasta ári og hvatti til þess að sú ákvörðun yrði dregin til baka. Sjómannasamband Íslands hefur einnig hvatt til þess að ákvæði um flutning á milli ára séu þrengd og þá um leið að framsalsrétturinn verði takmarkaður. Farmanna- og fiskimannasambandið telur á hinn bóginn að eðlilegt sé að þetta ákvæði sé til staðar í lögum um stjórn fiskveiða og færir fyrir því margvísleg rök. Það eru því skiptar skoðanir á þessu atriði í lögum um stjórn fiskveiða eins og svo margt annað en heilt yfir er frekar stuðningur við þetta atriði en hitt frá aðilum í sjávarútvegi að undanskildu Farmannasambandinu og þá Landssambandi íslenskra útvegsmanna sem þó hafði ekki útilokað breytingar á þessu atriði.

Það er rétt að benda á að ráðherra hefur með þessu frumvarpi heimild til þess, að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar, að hækka þetta hlutfall í einstökum tegundum telji hann slíkt stuðla að betri nýtingu viðkomandi tegunda. Með þessu ákvæði er því alls ekki verið að koma í veg fyrir það markmið að geta flutt heimildina milli ára heldur er það gert með tilliti til betri nýtingar fiskstofna en ekki annars. Því fellur þetta ákvæði fyllilega að þeim markmiðum sem getið er um í lögum um stjórn fiskveiða og hafa oft verið rædd á Alþingi.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að heimild til flutninga á veiðiheimildum milli ára eigi að vera takmörkuð líkt og verið hefur frá upphafi. Ég er einnig þeirrar skoðunar að veiði eigi að vera sem næst úthlutun á því tímabili sem úthlutað er hverju sinni og ég tel að sú breyting sem kemur fram í frumvarpinu sé því til bóta.

Ég hef sömuleiðis verið þeirrar skoðunar að það komi vel til greina að úthluta veiðiheimildum til lengri tíma en árs í senn eins og gert hefur verið. Með því að úthluta veiðiheimildum til t.d. tveggja eða þriggja ára í senn, þ.e. lágmarksafla í hverri tegund, má að mínu mati skapa meiri möguleika í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja en gert er með ársúthlutun eins og verið hefur í þessu kerfi.

Krafa sjávarútvegsins hefur verið sú að geta séð lengra fram í tímann með rekstur sinn en ár í senn og því mundi úthlutun á lágmarksafla til lengri tíma skapa meiri festu og öryggi en hingað til og stuðla að betri nýtingu og verðmætasköpun í sjávarútvegi en verið hefur. Með lengri úthlutun, tveggja til þriggja ára lágmarksúthlutun, þar sem hægt væri að bæta við ef mælingar bentu til þess, yrði sennilega meiri festa í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja.

Annað ákvæði sem ég vil nefna er línuívilnunin, þ.e. aðgerðir til að drýgja veiðiheimildir með svokallaðri línuívilnun. Þær eru umdeildar og hafa alltaf verið. Helstu rökin fyrir línuívilnun eru þau að línuveiðar séu atvinnuskapandi og almennt taldar umhverfisvænni en aðrar veiðar, en það er þó umdeilt eins og margt annað. Í dag er línuívilnun 16% og þannig útfærð að hún nær aðeins til afla sem veiddur er á línu sem beitt er í landi. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir að línuívilnun á afla sem veiddur er á landbeitta línu verði 20% og á línu sem stokkuð er upp í landi 16% og á hvort tveggja við um dagróðrarbáta.

Eins og áður sagði hefur línuívilnun verið afar umdeild frá fyrstu tíð og efasemdir uppi um þá aðferð að auka afla með tiltekinni veiðiaðferð umfram aðra með slíkum hætti. Það kann þó að vera réttlætanlegt og er full ástæða til að skoða þetta vel og vandlega. Landssamband smábátaeigenda hvetur eindregið til þess að línuívilnun verði efld og aukin og hafa smábátaeigendur m.a. gert tillögur um viðmiðunarprósentu hvað þetta varðar.

Sjómannasamband Íslands hefur hins vegar lagst gegn línuívilnun og Farmanna- og fiskimannasambandið sömuleiðis ásamt Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, sem er einnig þeirrar skoðunar að afnema beri línuívilnun af ýmsum ástæðum, og það sama má segja um Landssamband íslenskra útvegsmanna. Þetta atriði í fiskveiðistjórninni hefur alla tíð verið afar umdeilt en löng hefð er komin á þessa ívilnun, þ.e. að það reiknist ekki allt til kvóta sem línubátar koma með að landi. Það er löng hefð á þessu og almennt tel ég að þrátt fyrir að þetta sé umdeilt sé að öðru leyti í byggðum landsins og í fiskvinnslunni nokkuð þokkaleg sátt um að línuívilnun verði með einhverjum hætti eins og hún hefur verið undanfarin ár og ég tel að ná megi þokkalegri sátt um þetta. Sjálfur hef ég ekki verið ýkja hrifinn af þessu ákvæði í gegnum árin og finnst það dálítið á skjön við önnur markmið um stjórn fiskveiða. Það er t.d. ekki beinlínis hægt að fullyrða að línuveiðar séu umhverfisvænni en aðrar veiðar, það er ekkert einhlítt í því. Sannarlega er orkunotkun í sjávarútvegi minni á línuveiðum en í öðrum veiðiskap, t.d. með togveiðum, sem eru mjög orkufrek veiði en með sömu rökum mætti halda því fram að netaveiðar séu umhverfisvænar. Það er ekki mikil orkunotkun í netaveiðum, ekki meiri en í línuveiðum ef við horfum til þeirra þátta. Hins vegar er það þannig að veiðar á línu beinast oft í sókn á smærri fiski en stærri fiski. Netaveiðar beinast oft að því að veiða stærri fisk frekar en smærri fisk en sókn í veiðar á smærri fisk eru ekki beinlínis umhverfisvænar en sókn í stærri fisk hefur verið talin öllu betri veiðistýring. Í það minnsta man ég ekki eftir öðru á minni sjómannstíð en að alla tíð var verið að suða í mér að vera ekki að veiða smáan fisk, það væri hrikalega slæmt. Það er ekkert einhlítt í þessu frekar en öðru en ég tel þó að þetta ákvæði um línuívilnun sé þannig og hafi verið þannig í gegnum tíðina að við eigum að geta náð sátt um það að stærstum hluta.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðherra fái heimild til að kveða á um að vinna beri ákveðinn hluta afla í uppsjávarveiðum til manneldis. Hagur þeirra sem stunda fiskveiðar er auðvitað sá að hámarka verð aflans eins og mögulegt er, enda hefur það verið þannig í gegnum árin að stærstum hluta. Það er þó brýnt að mínu viti að hafa ákvæði sem þetta í lögum, sér í lagi vegna nýrra fisktegunda sem sækja inn í íslenska lögsögu sem og annarra sem fyrir eru. Það þarf að taka tillit til þess hvernig auðlindir eru nýttar, í hvaða tilgangi og með hvaða hætti samhliða því að hámarka verðmæti nýtingarinnar. Þetta á ekki einungis við um nýtingu sjávarauðlinda heldur um aðrar sameiginlegar auðlindir landsins eins og margoft hefur komið fram í umræðum á Alþingi. Samhliða því að fá rétt til að nýta auðlindir eiga að fylgja kvaðir um að gera það samkvæmt þeim leikreglum sem samfélagið setur hverju sinni. Það er fullkomlega eðlilegt að þess sé krafist af þeim sem nýta auðlindir sjávar, sem og aðrar auðlindir þessa lands, að þær auðlindir séu nýttar með eins skynsamlegum hætti og kostur er og þjóðarhagur verði fyrst og fremst hafður í huga en ekki hagur einstaklinga eða einstakra fyrirtækja.

Það er rétt að benda á að hér er um heimildarákvæði að ræða og einnig með tilgreindu hámarki afla, þ.e. 70% af uppsjávarafla einstakra skipa á ákveðnu tímabili ef þörf þykir. Hér er um nýmæli að ræða í lögum um stjórn fiskveiða og ólíklegt að ætla annað en þetta fái góða umræðu á Alþingi sem og annars staðar og ólíklegt annað en að sátt náist um þetta mál, enda er fyrst og síðast verið að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar í sjávarútvegi og hvetja til ábyrgari nýtingar á fiskstofnum við landið. Í þessu ákvæði felst ekki síður sú yfirlýsing af hálfu íslenskra stjórnvalda að sameiginlegar auðlindir verði nýttar með tilteknum hætti til manneldis og að sem mest verðmæti fáist við nýtingu auðlindanna. Sú yfirlýsing sem í þessu ákvæði felst, jafnvel þó aldrei verði gripið til þess eða því aldrei beitt, er því mikilvæg og hún vitnar um vilja þjóðarinnar til skynsamlegrar nýtingar sjávarauðlinda.

Heimilt hefur verið í mörg ár að framselja helming úthlutaðra veiðiheimilda á tveggja ára tímabili. Þetta þýðir einfaldlega að heimilt hefur verið að veiða aðeins helming úthlutaðra heimilda en leigja hinn helminginn frá sér ef menn hafa kosið að gera það. Þetta hefur þótt óréttlátt ákvæði og verið afar umdeilt innan greinarinnar. Reyndar má segja að við séum farin að nálgast kjarna deilunnar um stjórn fiskveiða sem hefur staðið yfir í allt of langan tíma hér á landi. Það er almenn sátt um það hjá hagsmunaaðilum í sjávarútvegi að takmarka þurfi rétt til framsals veiðiheimilda með einum eða öðrum hætti eins og ég var að nefna hér að framan. Á þessu þurfa að vera eðlileg undanþáguákvæði vegna ófyrirséðra og óvæntra atvika sem skerða sóknargetu skipa eins og önnur sambærileg ákvæði. Það er markmið að þær veiðiheimildir sem úthlutað er hverju sinni verði nýttar og veiddar af þeim sem fá þær til sín í úthlutun. Það er ekki markmiðið að þeir sem fá heimildir til að nýta auðlindir sjávar nýti þær ekki heldur versli þess í stað með þær sín á milli. Sem betur fer er það svo að flestir gera þetta, þ.e. veiða og nýta þær heimildir sem þeir fá úthlutað, en því miður hafa verið á því í gegnum árin vondar undantekningar sem oftar en ekki hafa sett ljótan blett á ímynd sjávarútvegsins og kallað fram gagnrýni á stjórn greinarinnar. Það er því eðlilegt að reynt sé að koma í veg fyrir slíkt og það er það sem verið er að gera með frumvarpinu.

Fyrir nokkrum árum gerðu hagsmunaaðilar í sjávarútvegi ákveðnar tillögur í þá veru að felld yrði úr gildi ákvæði um veiðiskyldu. Þess í stað yrði óheimilt að framselja meira en 25% af úthlutun hvers fiskveiðiárs. Í tillögunum voru einnig undanþáguákvæði vegna ófyrirséðra og óvæntra atvika eins og alltaf geta komið upp á sem hefðu áhrif á sóknargetu skipanna.

Sjómannasamband Íslands hefur margítrekað í gegnum árin þá skoðun sína að afnema beri rétt útgerða til framsals á veiðiheimildum og að þær fái aðeins leyfi til að veiða úthlutaðar aflaheimildir hverju sinni. Sjómannasambandið leggst reyndar alfarið gegn því að veiðiheimildir verði fénýttar með nokkrum hætti á annan hátt en að framan greinir.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands er svipaðrar skoðunar og Sjómannasambandið og leggur til að sett verði 100% veiðiskylda, full veiðiskylda, þó með ákveðnum undantekningarákvæðum. Jafnframt leggur Farmannasambandið til að leiguframsal innan fiskveiðiárs verði með öllu bannað og hvetur til þess að skýringa verði leitað á því hvers vegna veiðiheimildir í ákveðnum tegundum séu settar á skip sem af einhverjum ástæðum veiðir aldrei tiltekna tegund. Landssamband smábátaútgerða hefur slegið á svipaða strengi og reyndar fleiri þannig að almennt er sátt og vilji til þess í greininni að takmarka flutning á veiðiheimildum með þessum hætti eins og verið hefur. Ég sé því ekki ástæðu til annars en að einnig eigi að nást sátt um það í þessum sal.

Það ákvæði sem mest hefur verið til umræðu varðandi frumvarpið snýr að úthlutun á veiðiheimildum á skötusel, enda hefur frumvarpið verið kennt við þann fallega fisk alveg sérstaklega. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að ráðherra sé heimilt að úthluta veiðiheimildum í skötusel umfram það sem úthlutað er á þau skip sem hafa heimildir fyrir. Í stað þeirra 3.000 tonna af skötusel sem úthlutað var áður samkvæmt veiðireynslu verður nú 2.500 tonnum úthlutað með þeim hætti að ráðherra fái heimild til frekari úthlutunar á skötusel. Þetta ákvæði hefur verið gagnrýnt af þeim sem hafa haft veiðiheimildir fyrir í skötusel sem telja að með þessu sé verið að taka af þeim 500 tonn og flytja þau til annarra útgerða sem ekki hafi veiðireynslu í þessari tegund. Sömuleiðis hefur heimildarákvæði verið gagnrýnt, ekki síst af þeim sökum að með því er gert ráð fyrir að farið sé fram úr ráðlagðri sókn í skötusel, þ.e. farið langt fram úr ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar. Það stangast á við þá nýtingarstefnu sem á að fylgja við nýtingu fiskstofna og breytir þar litlu þó að benda megi á að þeir sem hafa hvað hæst í gagnrýni sinni hvað þetta varðar hafi sjálfir haft litlar áhyggjur af slíku í gegnum árin og staðið að úthlutun langt umfram ráðleggingar í flestum kvótasettum tegundum. En það ber að fara varlega í þessu, enda verður það gert og í fullri samvinnu og samráði við vísindamenn og sjómenn.

Ég hef skilning á sjónarmiði þeirra sem telja að verið sé að færa frá þeim heimildir í skötusel til annarra sem ekki hafa veitt þessar tegundir áður og mér finnst alveg koma til greina að taka tillit til þeirra sjónarmiða að einhverju leyti ef það yrði til að sátt næðist í málinu. Ég hef hins vegar ekki samúð með því sjónarmiði að þeir sem ekki hafi fyrir heimildir í skötusel í dag, en eru að fá hann sem meðafla í veiðarfæri á þeim hafsvæðum sem skötuselur hefur ekki áður veiðst, þurfi að leigja hann af þeim sem eru með hann fyrir í greininni. Mér finnst því sanngjarnt að fundin verði önnur leið og betri til að leysa þessi mál og það er gert með ákvæðum sem finna má í frumvarpinu og ég hef verið að nefna hér á undan. Með þessu móti yrði hugsanlega hægt að komast hjá því að skerða heimildir þeirra sem hafa þær fyrir eins og um er rætt en opna um leið fyrir nýja aðila til veiða á skötusel. Þess má geta að hugmyndir í frumvarpinu kveða á um að leigja eigi kíló af skötusel á 120 kr., sem er mjög hóflegt gjald, borið saman við það sem sjá má á heimasíðu Landssambands íslenskra útvegsmanna, þar sem skötuselskílóið er nú boðið til sölu á 330 kr. en ekki 120 eins og til stendur að gera hér.

Ég tel að um öll helstu atriði þess frumvarps sem við ræðum um eigi að vera tiltölulega auðvelt að ná sátt innan greinarinnar og hér á Alþingi — um breytingarnar sem gert er ráð fyrir, hvort sem það er í línuívilnun, flutning veiðiheimilda á milli ára eða veiðiskyldu. Það er almenn sátt um flest þessi atriði í greininni og þetta eru helstu deiluatriði sem hafa verið um stjórn fiskveiða í áratugi og ég hef ekki áhyggjur af því að við getum ekki náð saman um það í samfélaginu.

Deilan stendur fyrst og fremst um það sem kallað hefur verið skötuselsákvæðið, hvernig við ætlum að úthluta nýjum veiðiheimildum í skötusel eða hleypa nýjum aðilum inn í veiðar á skötusel vegna ýmissa aðstæðna í náttúrunni sem við verðum einfaldlega að bregðast við og um það eigum við að kljást fyrst og fremst. En ég er tilbúinn til að beita mér fyrir því að þau mál sem ég hef nefnt sem helstu deiluefni, þ.e. varðandi skötuselinn og línuívilnunina, verði tekin til frekari umræðu í nefnd á milli umræðna með það að markmiði að reyna að ná frekari sátt um þau.