138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:24]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í henni fólst óskaplega mikil óskhyggja um að þetta frumvarp væri einhver sáttagrundvöllur. Látum nú vera að við stjórnarandstæðingar séum að gagnrýna frumvarpið, látum það liggja milli hluta en þá skulum við ekki gleyma því að öll samtök sjómanna, LÍÚ, sem reyndar virðist stundum ekki mega nefna á nafn, og Alþýðusamband Íslands hafa farið fram á það að frumvarpið verði dregið til baka til að skapa megi frið um þá vinnu sem hafin er og við hv. þingmaður tökum þátt í í sérstakri nefnd sem ráðherra skipaði til að reyna að komast að skynsamlegri niðurstöðu varðandi sjávarútvegsmálin. Því vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hann að þessi samtök séu að fara fram með einhverri ósanngirni eða óbilgirni? Eða hvað gerir það að verkum, að mati hv. þingmanns, að þau leggja til að frumvarpið verði dregið til baka?

Ég ætlaði líka að spyrja hv. þingmann um annað atriði. Hann nefndi það ekki í ræðu sinni, a.m.k. ekki svo ég tæki eftir, að hér er ákvæði varðandi uppskiptingu á karfastofnum. Ég er sammála því að úthluta þarf kvótum með aðgreindum hætti í djúpkarfa og gullkarfa en það er ekki sama hvernig það er gert. Við bendum á það í minnihlutaáliti okkar að það sé mjög óskynsamlega að þessu farið eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu vegna þess að það er eingöngu stuðst við heildaraflareynslu í báðum þessum tegundum í stað þess að reyna að átta sig á hver aflareynslan er í aðgreindum tegundum. Það er rétt að kannski er ekki hægt að gera það nákvæmlega en með tiltölulega lítilli óvissu. Nú vil ég spyrja hv. þingmann: Tekur hann ekki undir það með okkur í minni hlutanum að það sé óskynsamlegt að gera það með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi og að skynsamlegra væri að fresta málinu, þessu ákvæði, og setjast yfir það hvort ekki er hægt að búa til betri tölulegan grundvöll að baki úthlutuninni, þannig að hún endurspegli betur raunverulega veiðireynslu skipanna í hvorri tegund fyrir sig? Ég veit að hv. þingmaður þekkir þetta mál vel, (Forseti hringir.) ég þarf ekki að útskýra það frekar. Þess vegna vildi ég heyra sjónarmið hans á efninu.