138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:30]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég tel ekki að þau samtök sem hv. þingmaður nefndi áðan og vilja kalla frumvarpið til baka séu að fara fram með ósanngjörnum hætti í málinu, mér finnst þetta ósanngjörn krafa, alveg sama hver ber hana upp. Mér finnst það ósanngjörn krafa að mál séu tekin af dagskrá Alþingis og þau ekki rædd frekar, að menn reyni að forðast rökræðuna, menn reyni að forðast að takast á um stefnumál í sjávarútvegi og málunum sé bara ýtt út af borðinu, mér finnst það mjög ósanngjarnt. Ég vil miklu frekar ræða við hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson og fleiri hv. þingmenn um þetta mál hérna og takast á um það í rökræðu frekar en að hætta að tala um það.

Varðandi gullkarfann mun ég beita mér fyrir því, bæði í þessari umræðu og í nefndarvinnu sem vonandi verður á milli 2. og 3. umr., að fundin verði viðunandi lausn á því máli. Þetta hefur verið rætt í nefndinni, það eru ákveðin vandkvæði á því að finna réttláta skiptingu á gullkarfa og djúpkarfa en við hljótum að finna lendingu í því sömuleiðis eins og í öllu öðru hér.