138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:39]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dapurt að heyra þá forsjárhyggju sem býr í hjarta hv. þm. Björns Vals Gíslasonar. Kannski ekkert ósvipað og til að mynda þegar leitað er heimildar í þessu frumvarpi til handa sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að stýra vinnslu á uppsjávarfiski. Hvaða rugl er þetta? Á ráðuneytið að fara að stýra vinnslu á uppsjávarfiski? Er eðlilegt, eins og hv. þingmaður sagði, að stofna leigupott, verðleggja hann eftir geðþóttaákvörðun stjórnvalda og búa til tvo aðila í landinu, annars vegar samkeppnismarkaðinn og hins vegar leigupottinn með væntanlega þá raunverulegum gjafakvóta á mun lægra verði eftir því sem hv. þingmaður sagði?

Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta tvöfalda kerfi gengur ekki, það er ekki hægt, það er ekki hugsað til enda. Þetta er hlutur sem menn verða að horfa á og þetta undirstrikar fyrst og fremst að það er óskynsamlegt að ræða þetta mál hér ef á að samþykkja það. Ef það á bara að vera til umræðu er það allt í lagi, eins og hv. þingmaður sagði er allt í lagi að skiptast á skoðunum, en þetta er dónaskapur við greinina, við 23 manna nefndina, dónaskapur við þann möguleika að reyna að ná sátt um þau atriði sem menn greinir á um.

Hins vegar var ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður nefndi ekki einu orði að hann væri hlynntur fyrningarleiðinni, ekki einu einasta orði, og það var jákvætt að heyra. Margt í þessu frumvarpi eru atriði sem hljóta að koma til breytinga en það er rétt að gera það ekki fyrir fram.