138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:41]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Árni Johnsen beindi í sjálfu sér ekki spurningu til mín í andsvari sínu heldur var með hugleiðingar um ræðu mína og þá sérstaklega varðandi það að stýra vinnslu á uppsjávarfiski. Ég fór yfir það í ræðu minni hvert markmiðið með þessu ákvæði er, sem ég tel vera fyrst og fremst og ekki síst, þ.e. gildið í því ákvæði, yfirlýsingu um það hvernig við ætlum að nýta auðlindir sjávar, í þessu tilfelli uppsjávarfiskinn þar sem við höfum ekki verið að nýta hann mjög vel, þ.e. nýjar tegundir sem hafa verið að koma hér inn í lögsöguna eins og dæmi eru um á síðasta ári. Þetta er fyrst og fremst ákvæði sem hægt er að grípa til, þetta er fyrst og fremst yfirlýsing sem hægt er að lesa í hvernig við ætlum að nýta þetta og við krefjumst þess að það sé gert með ábyrgum hætti.

Ég get nefnt aðra uppsjávartegund sem verið er að veiða núna suður af landinu sem er utan allrar stýringar og ekki er verið að gera neinar kröfur um og heitir gulldepla sem, ef ég fengi nokkru um það ráðið, mundi banna veiðar á strax um miðjan dag í dag á meðan verið væri að skoða áhrif þeirra veiða. Ég veit að áhrif þeirra veiða eru mjög mikil. Við höfum áður brennt okkur á stórtækum flottrollsveiðum hér suður af landinu sem hafa gert veiðar á öðrum tegundum mjög erfiðar, t.d. karfa. Flottrollsveiðar á karfa suður af landinu árum saman gengu nánast af karfamiðunum dauðum á sínum tíma. Sama er að gerast með gulldepluveiðar núna, gulldeplan hefur haldið lífi í fisktegundum úti af Suðurlandinu, bæði karfa og ufsa, eftir að sandsílið drapst. Með stórtækum veiðum á gulldeplu í dag erum við að gera sömu mistökin að mínu mati og gerð hafa verið áður, en um gulldeplu (Forseti hringir.) er lítið vitað bæði hjá Hafrannsóknastofnun og annars staðar. Ég tel þetta mjög varhugaverða þróun sem við eigum að grípa inn í rétt eins og með aðrar (Forseti hringir.) veiðar hér við land.