138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[12:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson talaði um þá grundvallarbreytingu sem fælist í hugmyndum stjórnvalda um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu að fjarlæga eða taka úr sambandi hlutdeildarhugtakið í heildarafla og að menn hafi fram að þessu átt trygga hlutdeild í úthlutuðum heildarafla. En nú er það bara ekki svo. Leiguliðarnir eiga ekki trygga hlutdeild í heildarafla, það er þannig. Leiguliðarnir eru ofurseldir því að leigja aflaheimildir sínar af handhöfum aflaheimildanna og um það snýst náttúrlega þessi grundvallarágreiningur, hvort leiguliðarnir eigi að vera ofurseldir því að leigja af handhöfum aflaheimildanna eða geta leigt t.d. úr auðlindasjóði eða einhverju öðru ásættanlegu fyrirkomulagi á sanngjörnu verði.

Þannig vill til að fyrir liggja upplýsingar t.d. um það hvernig handhafar skötuselsveiðiheimildanna hafa nýtt þær. Ég held ég fari rétt með að 70–80% handhafa skötuselsveiðiheimilda veiði þær ekki heldur leigi þær. Þetta er grundvallarágreiningsatriðið, þetta er það sem málið snýst um.

Varðandi hina meintu skerðingu úr 3.000 tonnum í 2.500 veit þingmaðurinn það, vænti ég, að stjórnarmeirihlutinn hefur verið tilbúinn að ræða þessar magntölur og jafnvel tilbúinn að — það hefur komið til umræðu að fara í 3.000 tonn þannig að það væru 1.500 tonn sem væru þá til úthlutunar að hámarki. En við erum auðvitað ekki að negla niður í frumvarpinu neinar aðrar magntölur en hámarksviðmiðið (Forseti hringir.) og það er náttúrlega það sem ætti að skipta máli og þar er einungis um heimildarákvæði að ræða.