138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, meginþorri þeirra sem eru að veiða skötusel eiga ekki hlutdeild í úthlutuðu aflamarki, þeir verða að leigja veiðiheimildirnar af núverandi handhöfum.

Mig langar að gera athugasemd við annað, það er þessi mikla áhersla hv. þm. Illuga Gunnarssonar og fleiri sem hér hafa talað á það að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir að farið sé 80% fram úr veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Ég er reyndar alls ekki sammála því vegna þess að þarna er um hámarksákvæði að ræða og í nefndarálitinu er sérstaklega gert ráð fyrir því að haft sé samráð við Hafrannsóknastofnun þó að markið sé sett við 2.000 tonn.

Mér finnst þessi umhyggja skjóta skökku við í ljósi þess að flutt hefur verið hér í þinginu tillaga hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að auka verulega, umfram veiðiráðgjöf, aflaheimildir í þorski svo að nemur tugum þúsunda tonna. Annaðhvort eru menn samþykkir prinsippinu um að veiðiráðgjöf skuli fylgt í hvívetna eða þá að þeir eru það ekki. Þar er umræðan um 80% eða einhver önnur prósent (Gripið fram í.) bita munur en ekki fjár. Það er nefnilega það, annaðhvort eru menn samþykkir prinsippinu eða ekki.