138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:35]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef greinilega vakið upp einhverja Icesave-takta hjá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Það hvarflar ekki að mér að ritskoða ræður nokkurs þingmanns hér í salnum, né ritskoða fólk yfir höfuð, en ég er að biðja um markvissa, málefnalega umræðu. Ég vísa sérstaklega til yfirferðar hv. þm. Björns Vals Gíslasonar þar sem hann fór ítarlega yfir hvert einasta atriði frumvarpsins, lýsti á því kostum og göllum, dró fram málefnaleg rök með og á móti og komst að ákveðnum niðurstöðum. Þannig vil ég nálgast þetta mál. Þess vegna get ég ítrekað spurningar mínar til hv. þingmanns: Hver er afstaða hennar til einstakra atriða þessa máls? Hún hefur til þess fullt málfrelsi.

Hér hefur líka óformlega, og komið fram hér í þingsal og víðar, verið boðin fram málamiðlun í þessu máli til móts við sjónarmið þeirra sem hafa aflahlutdeild í skötusel. Því hefur ekki verið sinnt enn þá, en ég vonast til að það náist fram. Ég vonast til þess að menn nálgist þessa umræðu með það að markmiði að ná sátt eða málamiðlun í málinu því að ríkisstjórnin hefur aðra stefnu í fiskveiðistjórnarmálum en Sjálfstæðisflokkurinn. Við viljum tryggja hagsmuni fleiri en kvótaeigenda. Ég tala þar um útgerðir án kvóta sem hafa fundið flestar matarholurnar í íslenskum sjávarútvegi sem til eru. Ég nefni leiguliðana eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir gerði.

Hvað varðar okkar umhverfisgrænu sjónarmið bið ég hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur að lesa nefndarálitið. Þar kemur skýrt fram að haft verði samráð við Hafrannsóknastofnun um hugsanlega aukningu og það verður byggt á vísindalegum rökum. Þar munu minn flokkur og Samfylkingin standa að því (Forseti hringir.) að stofninn muni njóta (Forseti hringir.) vafans eins og jafnan.