138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég náði því miður ekki að vera viðstaddur fyrri hluta þessarar umræðu þegar mælt var fyrir málinu og fyrstu ræðurnar. En ég held að maður geri sér nokkuð vel grein fyrir því, í ljósi 1. umr. og umfjöllunar í þinginu undir jafnvel öðrum liðum, hvernig landið liggur varðandi þennan helsta atvinnuveg þjóðarinnar, þ.e. okkar helsta gjaldeyrisskapandi atvinnuveg og framtíð hans.

Í því frumvarpi sem hér er til umræðu eru nokkur atriði sem er ljóst að skiptar skoðanir eru um. Hér er rætt um m.a. línuívilnun og ég hef einna mestar áhyggjur af því varðandi línuívilnunina ef það er í raun stefna stjórnvalda að draga úr tækninýjungum og hagkvæmni í þeirri grein. Ég hef í sjálfu sér ekki stórar áhyggjur af því þó að verið sé að auka um einhver prósent til eða frá það magn sem má veiða í línuívilnuninni, en það er ljóst að með því frumvarpi sem hér er rætt er verið að fjölga þeim sem mega veiða þarna, eins og kom fram hjá hv. þm. Ásbirni Óttarssyni áðan, en ekki í raun að auka það magn sem er til ráðstöfunar.

Varðandi veiðiskylduna held ég að þurfi menn að stíga mjög varlega til jarðar því að þetta er mjög tvíbent. Ljóst er að það er hagur margra að veiðiskyldan sé aukin, að hún sé í raun höfð 100% eða eitthvað slíkt, en það hefur vitanlega þau áhrif eins og hér hefur komið fram að það getur dregið úr nýliðun, það getur dregið úr framboði til þeirra sem vilja hugsanlega leigja sér aflamark, og það koma upp ýmis vandamál þegar við skoðum þessa tillögu. Þar af leiðandi vil ég hvetja nefndina til að skoða það mjög vandlega milli umræðna, eins og annað í þessu frumvarpi, hvort verið sé að stíga nógu varlega til jarðar varðandi þennan þátt.

Hér er einnig rætt um geymslurétt. Þetta er kannski eitt af því sem ég persónulega hef hvað mestar efasemdir um ásamt skötuselsákvæðinu svokallaða, að verið sé að takmarka þennan geymslurétt. Í rauninni er samt sem áður verið að segja að ráðherra geti ákveðið annað ef þær aðstæður eru uppi. Ég held að það sé mjög mikilvægt, ef við horfum á hagkvæmni eða hagræðingu útgerðarinnar til þess að sækja aflann, að heimilt sé að færa töluvert af honum á milli tímabila. Það snýr ekki eingöngu að útgerðinni sem fyrirtækis heldur snýr það líka að starfsfólkinu og þeirri starfsemi sem þar er, markaðsaðstæðum og öðru slíku. Við megum ekki gleyma því, og ég kem aðeins að því á eftir, hversu margir starfa við sjávarútveginn.

Varðandi hið svokallaða skötuselsákvæði sem nefnt er eftir þeim ljóta fiski en bragðgóða, er það mjög mikið áhyggjuefni að mínu viti að verið sé að taka þetta skref sem verið er að taka í því sem í raun má kalla fyrningu. Það er eitthvað sem ég er alfarið á móti að verði tekið. Við getum staðið hér og talað í allan dag og margir eru betur til þess fallnir en ég að ræða um tæknilegar útfærslur á því hvar skötuselurinn heldur sig og hvar á að veiða hann og slíkt. (REÁ: Ég skal …) Já, þakka þér fyrir, hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir ætlar að fara yfir það fyrir mig, en það er ekki það sem ég ætlaði að segja heldur í rauninni sú hugsun sem býr að baki þessa ákvæðis og við það er ég hvað hræddastur og vona svo sannarlega að menn stígi ekki það skref sem boðað er í frumvarpinu varðandi þann hluta.

Ég er búinn að nefna helstu atriðin í mjög stuttu máli og hér hefur verið farið yfir í ræðum sem ég hef heyrt tæknilegar útfærslur og um hvað þetta mál snýst tæknilega. Það sem ég ætla að nefna eru vinnubrögðin, ekki er hægt að standa hér án þess að nefna þau. Ég er ásamt mörgum öðrum þingmönnum mjög ósáttur við það hvernig haldið er á vinnu og umfjöllun hér um sjávarútvegsmál. Nú er svokölluð sáttanefnd að störfum, nefnd sem á að fjalla um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu, nauðsynlegar breytingar, og hugsanlega skapa sátt milli stjórnvalda og hagsmunaaðila og slíkt, og þá komum við fram með frumvörp, bæði stjórn og stjórnarandstaða, ofan í þá vinnu. Mér finnst það ekki skynsamlegt, ég tel skynsamlegra að reyna að herða á okkur í nefndinni að klára það sem þar fer fram til að hægt sé að koma fram með lagafrumvörp sem byggja á þeirri vinnu.

Ég hlýt hins vegar að taka mark á því að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er vitanlega kveðið á um að þetta skuli gert. Ég hefði haldið að það væri hreinlegra af hæstv. ríkisstjórn að tilkynna það hér hvort það væri markmið að út úr hinni svokölluðu sáttanefnd næðist einhver sátt eða hvort það væri í rauninni til nefnd eða vettvangur til þess að kynna svokallaða fyrningarleið fyrir þessum hagsmunaaðilum.

Ég get ekki látið hjá líða fyrst við erum að ræða þetta mál að nefna aðeins hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Ég tel mjög mikilvægt að allir þeir hagsmunaaðilar sem teljast til sjávarútvegs, hvort sem það eru samtök sjómanna eða útgerðarmanna eða fiskvinnslustöðvanna eða hverjir sem það eru, stígi varlega til jarðar varðandi þennan meginatvinnuveg þjóðarinnar. Það er mjög mikilvægt að hagsmunaaðilarnir, líkt og stjórnvöld, líkt og alþingismenn, íhugi vel hvar hagsmunum þjóðarinnar er best borgið varðandi þessa atvinnustarfsemi. Ég tel að þarna eigi allir að taka eitthvað til sín vegna þessara orða minna, ég held að það sé mjög mikilvægt að menn líti í eigin barm og spyrji sig og þá á ég við stjórnvöld og þessa hagsmunaaðila: Stöndum við of fast á skoðunum okkar, erum við föst í einhverju fari sem við komumst ekki upp úr og ber okkur að leggja okkur fram við að komast upp úr þessum hjólförum?

Frú forseti. Nú starfa líklega um 8 þúsund manns í sjávarútvegi í landinu, þ.e. við veiðar og vinnslu, og ég sá einhvers staðar að talið er að hann skapi um 16 þúsund afleidd störf, og 90% veiðiheimilda eru á landsbyggðinni. Þar af leiðir að þær miklu breytingar sem boðaðar hafa verið geta og munu hafa hvað mest áhrif á landsbyggðinni. Sú staðreynd að aflaheimildirnar eru að mestu leyti á landsbyggðinni, auðvitað ekki að öllu leyti, kann að endurspegla það að svo virðist sem að í þéttbýli og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu séu sterkustu skoðanirnar á því að fara eigi í stórfelldar breytingar á sjávarútvegskerfinu, innkalla jafnvel aflaheimildir og úthluta þeim aftur með einhverjum hætti sem ekki hefur verið upplýst um. Af hverju þetta skiptist með þessum hætti veit ég ekki en það er hins vegar mjög sláandi að svo er. Ég held að það sé rangt að auka forræðishyggju, sem er kannski ekki besta orðið, í þessari grein frekar en öðrum en að sama skapi er mjög mikilvægt að einhvers konar utanumhald sé um meginreglur og annað í sjávarútvegi. Ég er að sjálfsögðu fylgjandi því að áfram verði unnið eftir því kerfi sem við erum með í dag, aflamarkskerfinu, en það er mikilvægt að hlusta á þá gagnrýni sem hefur komið fram og reyna að finna leiðir til sátta. Þess vegna tók ég sæti í þeirri ágætu nefnd sem er að fjalla um þetta mál og ég vona svo sannarlega að það fáist niðurstaða í það sem fyrst. Ég óska líka eftir því að stjórnvöld stígi varlega til jarðar með frumvörp og breytingar á því kerfi sem er til umfjöllunar meðan nefndin starfar, ég held að það sé frumskilyrði.

Ríkt hefur óvissa um sjávarútveginn í marga mánuði vegna þeirra yfirlýsinga sem gefnar voru hér varðandi fyrningu aflaheimilda og ekki verður undan því vikist að eyða þeirri óvissu sem fyrst til að við getum unnið áfram með þennan mikilvæga atvinnuveg og hvet ég stjórnvöld til að leggja sitt á vogarskálarnar í því.