138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta sjútv.- og landbn. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt sem ástæða er til að svara af því sem fram kom í ræðu þingmannsins, t.d. að það væri valdaþrá núverandi stjórnarflokka að fá að leika sér með fiskveiðistjórnarkerfið af því að við værum komin til valda. Ég vil benda á að það kom út auðlindaskýrsla árið 2000 og fyrsta frumvarpið sem Samfylkingin flutti um þessa svokölluðu fyrningarleið var flutt árið 2003 eða 2002 ef ég man rétt.

Þingmaðurinn segir að hún og hennar byggðarlag hafi engu tapað og þar með sé ástæðulaust að breyta nokkru í þeim leikreglum sem nú eru við lýði. Ég vona að ég sé ekki að mistúlka orð þingmannsins (Gripið fram í: JónG: ég og mín fjölskylda ...) — já, ég og mín fjölskylda, sagði þingmaðurinn — en þarna kannski greinir á milli mín og þingmannsins vegna þess að ég kem úr byggðarlagi sem tapaði gríðarlega á núverandi kvótakerfi, mörg hundruð störfum, varð fyrir atvinnuröskun sem er svo margfalt meiri en sú atvinnuröskun sem suðvesturhornið horfist í augu við núna og upplifði það fyrir þremur árum síðan að útvegsmaður seldi kvótann og fór með allt sitt hafurtask og þrjá milljarða út úr byggðarlaginu.